-4.1 C
Selfoss

Járnvinnsla í Flóanum, óskrifað blað

Vinsælast

Páll Imsland, jarðfræðingur og áhugamaður um Flóann ætlar að efna til opins útifundar á hlaðinu í Smjördölum fimmtudaginn 26. ágúst nk. klukkan 20:30. Efni fundarins er nokkuð merkilegt en Páll ætlar að kynna svo kallað járnslagg. „Fundarefnið er sögulegs eðlis. Það gæti verið um járngerð og járnnám í Flóanum á landnáms- og söguöld, en ekkert er til um þetta efni á prenti,“ segir Páll.

Sannfærður um að Flóamenn hafi verið drjúgir við járnvinnslu

Það var ekkert járn flutt til landsins fyrr en um 1450, svo kallað Ásmundarjárn. Menn hafa þó þurft að eiga skeifur, klinkur, lamir, hnífa og ljái, svo eitthvað sé nefnt og því orðið að finna sér og vinna járn innanlands. „Í mínum huga gefur það auga leið, að staður eins og Flóinn, sem er fullur af mýrarrauða og var viði vaxinn framan af öldum hafa rauði og járn verið dýrmæt hlunnindi, sem ekki hafa verið látin ónotuð.“ Það er fleira sem rennir stoðum undir þessar kenningar en Páll hefur fundið svokallað járnslagg, á engjum í landi Sölvholts og mikið af slaggi hefur komið í ljós við túnvinnslu í Smjördölum.

Markmiðið að kenna fólki að þekkja slaggið

„Ég þekki bæði mýrarrauða og járnslagg vel og verð með sýnishorn af efnunum. Markmiðið með fundinum er að kenna mönnum að þekkja slagg og fræða gesti um hvernig þetta lítur út svo áhugasamir geti áttað sig á því hvort þeir hafi orðið varir við efnið annarsstaðar í Flóanum. Það er auðvelt að taka feil á járnslaggi og hraungjalli á svæðinu, svo misgreining er ekki ólíkleg.“

Menningararfur sem ekki má tapast

Það er ljóst að Páli finnst þurfa að standa betri vörð um þennan þátt menningararfs íslendinga en gert hefur verið. „Hvergi á landinu hefur líklega verið meira af rauða sem nota mátti til járnvinnslu en í Flóanum. Það er undarlegt til þess að hugsa að lítið sem ekkert skuli vera vitað um þetta mál yfirleitt og ekkert gert til að efla áhuga á þessum þætti sögunnar bæði í Flóanum og restinni af landinu,“ segir Páll.

Áhugafólk hvatt til að mæta

Páll vill hvetja sem flesta til að mæta og kynna sér efnið. „Það þekkja flestir Flóamenn rauðaleirinn af umgengni sinni við hann. Hitt er mögulegt að menn viti minna um slagg eða þekki það. Þetta gæti ýtt undir áhuga á því að vinna að rannsóknum á málefninu, en mér finnst óþarfi að saga járngerðar í Flóanum verði óskrifað blað í þúsund ár til viðbótar,“ segir Páll að lokum.

Nýjar fréttir