-1.6 C
Selfoss

Alviðra í ljósi sögunnar

Vinsælast

Þegar Magnús bóndi Jóhannesson gaf Landvernd og Árnessýslu jarðir sínar Alviðru og Öndverðanes II árið 1973 var haft á orði að þetta væri verðmætasta gjöf sem gefin hefði verið á Íslandi. Á þessum tíma var mikil ásókn í lóðir undir sumarhús og vafalaust hefði verið hægt að stórgræða á sölu sumhúsalóða á þessu svæði. Í gjafabréfi fyrir jörðunum var kveðið á um að eignina megi ekki skerða á neinn hátt heldur beri að varðveita hana samfellda og nýta með landgræðslu- og náttúruverndarsjónarmið fyrir augum. Með því að treysta hinum ungu landgræðslu og náttúruverndarsamtökum Landvernd og Árnessýslu fyrir þessum náttúruperlum kom Magnús í veg fyrir að fjáraflamenn kæmu höndum yfir jarðirnar og bútuðu þær niður með tilheyrandi raski og braski.

Fyrstu árin var hefðbundinn búskapur áfram í Alviðru og fékk Magnús allan arð af jörðunum meðan hann lifði. Aðaltekjulindin var sala á veiðileyfum í Soginu en Alviðra er vestanmegin Sogsins en Öndverðanes austanmegin.

Árið 1981 eftir lát Magnúsar  var gerð skipulagsskrá fyrir eignirnar og þær gerðar að sjálfseignarstofnun undir heitinu Alviðra landgræðslu- og náttúruverndarstofnun. Stjórn stofnunarinnar skipuðu fulltrúi Landverndar og fulltrúi Árnessýslu ásamt skógræktarstjóra ríkisins. Fljótlega varð að samkomulagi að Landvernd annaðist alla umsýslu með staðnum fyrir hönd eigendanna.

Árið 1984  var samþykkt í stjórn Alviðrustofnunar að nýta jarðirnar til umhverfisfræðslu og setja þar upp náttúruskóla að norrænni fyrirmynd sem var í anda markmiða Landverndar um fræðslu. Þá var hafist handa við að gera heildarskipulag af jörðunum og ráðist í viðamiklar endurbætur á húsakosti svo hægt væri að taka á móti hópum til skemmri eða lengri dvalar. Fljótlega var svo komið upp veiðihúsi, sem áformað var að nýta til fræðslustarfsins utan veiðitímabilsins.

Landvernd tók að sér að sjá um uppbyggingu fræðslunnar enda var það í anda markmiða samtakanna, en á þessum árum var fræðsla og kynningarstarf mikilvægur þáttur í starfi Landverndar. Um það vitna  fjölmörgar ráðstefnur og kynningarfundir, fjölbreytt útgáfa og oft voru farnar ótroðnar slóðir og nýstárlegar við að þróa fræðslustarfið. Í Alviðru opnaðist gullið tækifæri til styrkja fræðsluna enda náttúrufar jarðanna einkar fjölbreytt og hentaði vel til útivistar og til að fá  börn og fullorðna til að nema þar og njóta.

Á þessum allra fyrstu árum Alviðrustarfsins voru ýmsar hindranir sem þurfti að glíma við og leysa. Talsverður ágangur búfjár var inn á gróðursæl svæði jarðanna, þannig að girða þurfti landið  – sem ekki var auðvelt því fara þurfti með girðingarefni alla leið uppá Ingólfsfjall. Iðulega þurfti að smala landið og lagfæra girðingar. Það þurfti að koma böndum á malartekju í Alviðrulandi og urðu um það talsverð átök sem m.a. leituðu inn á borð Náttúruverndarráðs og samgönguráðherra. En þrátt fyrir samkomulag um ákveðið magn og frágang tóks illa að framfylgja því eins og sjá má enn þann dag í dag. Á tímabili hafði Golfklúbbur Selfoss  aðstöðu bæði í húsi og á túnum Alviðru en það þótti illa samræmast náttúruskoðun og fræðslu þar sem m.a börn voru á ferðinni og það þurfti talsvert átak til að breyta þeirri notkun.

Tekjur til framkvæmda í Alviðru komu fyrst og fremst af sölu á veiðileyfum í Soginu. Eftir á að hyggja er það hreint með ólíkindum hversu miklu var hægt að koma í verk á þessum árum. Þar munaði um öflugt starf sjálfboðaliða sem voru boðnir og búnir að taka þátt í að gera þau litlu og stóru kraftaverk sem þarna voru unnin. Stærstan hlut átti starfsfólk Landverndar og stjórnarmenn og fjölskyldur þeirra. Verkefnin voru mörg bæði skrítin og skemmtileg svo sem smölun, girðingarvinna, gróðursetningar, málningarvinna úti og inni, smíðar, gardínusaumur,tiltektir o.fl o.fl  Aðkeypt vinna var einkum frá fólki úr héraði.

Fyrsti hópurinn kom í umhverfisfræðslusetrið í ágúst 1985. Fyrstu fimm árin voru gistinætur um 7000 eða 1350 á ári. Aðsóknin fór vaxandi árin á eftir og komst fjöldi nemenda í um 2500 á ári þegar mest var.

Því er ekki að leyna að við sem tókum þátt í uppbyggingu fræðslusetursins í Alviðru fyrstu árin áttum okkar framtíðarsýn um vöxt og viðgang staðarins. Við sáum fyrir okkur að þarna myndi umhverfisvernd, fræðsla og menningarstarf haldast í hendur og laða börn og fullorðna til þátttöku í því fjölbreytta starfi og skemmtun sem þarna yrði um hönd höfð. Fræðsla, og ráðstefnur,  menningarviðburðir svo sem tónleikar, listsýningar, úti og inni, leiksýningar innandyra og í útileikhúsi blandað saman við allskonar námkeið m.a. um nýtingu á gjöfum náttúrunnar í nærumhverfinu, lífræna ræktun o.fl o.fl. Húsnæðið á staðnum væri að sjálfsögðu byggt úr umhverfisvænu byggingarefni og orkugjafarnir væru sól og vindur. Á þessum árum höfðum vð óbilandi trú á að efla þyrfti fræðslu og styrkja tengsl við landið, byggja upp væntumþykju svo hægt væri að skilja mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar. Til þess var gjöf Magnúsar bónda Jóhannessonar ómetanleg. Þörfin fyrir fræðslu í umhverfismálum er ekki minni í dag en áður svo Alviðra á enn sem fyrr mikilvægu hlutverki að gegna.

Auður Sveinsdóttir var formaður Landverndar á árunum 1989 til 1997 og Svanhildur Skaftadóttir var starfsmaður Landverndar frá 1976 og framkvæmdastjóri frá 1986 til 1997.

 

Nýjar fréttir