-5 C
Selfoss

Vesturbúðarfélagið fær vilyrði fyrir styrk frá Árborg

Vinsælast

Erindi frá Vesturbúðarfélaginu á Eyrarbakka var sent til bæjarráðs þann 23. júlí sl. Í erindinu er óskað eftir stuðningi vegna fornleifarannsókna og uppgraftar á Vesturbúðarhól. Alls var óskað eftir stuðningi að upphæð 2.5 milljónum á ári til tveggja ára. Bæjarráð samþykkti erindið og vísar því til vinnu við fjárhagsáætlun og að gert verði ráð fyrir fjárheimildum í fjárhagsáætlunum áranna 2022 og 2023.

Sameiginlegt markmið að reisa Vesturbúðarhúsin

Fram kemur í fundargerðinni að undirritaður hafi verið samstarfssamningur milli Árborgar og Vesturbúðarfélagsins. Í samningnum er kveðið á um að sameiginlegt markmið aðila samningsins sé að stuðla að því að endurbyggja Vesturbúðahúsin í því sem næst upprunalegri mynd. Í samningnum er einnig kveðið á um að Vesturbúðarfélagið muni í samstarfi við Minjastofnun og aðra fagaðila láta vinna nauðsynlegan fornleifauppgröft á lóðinni.

Fornleifarannsóknir nauðsynlegar áður en byggt er

Í samtali við Guðmund Ármann, félaga í Vesturbúðafélaginu kemur fram að fornleifauppgröftur sé kostnaðarsamt verkefni, en nauðsynleg forsenda fyrir því að kanna hvort hið sameiginlega markmið sé gerlegt. Þar komi fjármagn frá sveitarfélaginu sterkt inn til þess að hraða þeim rannsóknum sem kostur er. „Við höfum að auki fengið fjármagn frá Fornminjasjóð að upphæð 2,5 milljónum. Það fjármagn hefur verið fullnýtt í verkefnið. Við sjáum að til þess að geta haldið þessu áfram sé nauðsynlegt var að fá frekara fjármagn frá sveitarfélaginu, sem nú hefur verið samþykkt okkur til mikillar ánægju.“ Í framhaldinu er áætlað að leita til fyrirtækja og annarra aðila til þess að koma að verkefninu og gefa þannig fleiri aðilum kost á að leggja verkefninu lið.

Mikilvæg uppbygging fyrir sveitarfélagið sem heild

Við ræðum uppbygginguna áfram við Guðmund en hann telur að sveitarfélagið sem heild. „Íbúar í Árborg hafa af því verulega hagsmuni að Vesturbúðin verði endurreist. Í dag er svæðið sár í hjarta byggðarinnar á Eyrarbakka en með endurbyggingu Vesturbúðarinnar mun það sár eiga möguleika á að gróa. Sögulegt mikilvægi Vesturbúðarinnar er verulegt og með endurbyggingunni mun byggingin verða eitt af djásnum Eyrarbakka og verndarsvæðis í byggð,“ segir Guðmundur. Undir þetta er tekið af bæjarráði Árborgar sem segir að: „Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir Eyrarbakka og Sveitarfélagið Árborg heldur landið allt, að glata ekki séreinkennum byggðasögu Eyrarbakka heldur styrkja þau og vernda og nota til jákvæðrar kynningar og fræðslu. Markmiðið með því að skilgreina þennan hluta þorpsins sem verndarsvæði í byggð, er ekki einungis að vernda söguna og byggingararfinn, heldur standa vonir til þess að með því aukist skilningur íbúa og bæjaryfirvalda á því hversu mikilvægur þessi menningarsögulegi arfur er, sem aftur leiði til þess að honum sé sómi sýndur. Svo það megi takast, þarf samhent átak allra sem að uppbyggingu og viðhaldi svæðisins koma.“

 

Nýjar fréttir