-5.5 C
Selfoss

Barnabækur eru æðsta stig bókmennta

Vinsælast

Rökkvi Hljómur Kristjánsson er afdaladrengur sem býr í Hólum á Rangárvöllum innan um foreldra sína, systkini og önnur íslensk húsdýr. Hann fór ungur til náms í hámenningarstaðnum í neðra og síðar frekara náms tveimur ám vestar. Ber hann þess lítil merki. Nú langt genginn í þrítugt unir hann hag sínum vel sem heimaalinn innansveitarmaður og horfir fram á við með bjarta framtíð að baki.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Þessa stundina er sú bók sem lengst hefur legið á náttborðinu hjá mér Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah. Áhuginn á henni er því miður ekki meiri en svo að hún er búin að liggja þar í rúmt ár. Þetta er þó að ýmsu fróðleg lesning sem segir á skoplegan máta frá framgangi ungs manns í afar heftandi og erfiðu samfélagi hvar margt er manni sjálfum mjög framandi. Einnig hef ég nýlega lesið Birting eftir Voltaire og annað bindi Fimmaurabrandarafjelagsins, en það eru einmitt helst svona mikilsverð rit sem mér finnst skömm að hafa ekki lesið sem vekja áhuga minn.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Mér þykir skemmtilegast að lesa fyndnar bækur en best að lesa góðar bækur. Á heildina litið hugsa ég þó að ég sé hrifnastur af stuttum bókum.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Barnabækur eru í mínum huga æðsta stig bókmennta. Ég held að hvaða bjálfi sem er geti skrifað skáldsögu eða ljóðabók en til að skrifa barnabók þarf að vanda almennilega til verka og vera vel ritfær. Ég er alinn upp við mikinn lestur, allir fjölskyldumeðlimir mínir eru mikið lesnir og mikið af bókum á heimilinu. Þannig var að sjálfsögðu lesið fyrir mig sem barn og er systir mín tekin upp á því að lesa fyrir mig aftur sem uppkominn mann þegar henni finnst ég hafa vanrækt lestrargetu mína ótæpilega. Uppáhaldsbók er og verður alltaf Á Saltkráku eftir Astrid Lindgren en til að impra á fleiri góðum bókum, sem einnig eru svokallaðar barnabækur, mætti nefna Spóa eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Söguna af Dúdúdú eftir Örn Snorrason og Fríríkið eftir Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Sennilega er sannast að segja að þær séu litlar eða í það minnsta mjög óreglulegar. Ég er sem fyrr segir alltaf með bók á náttborðinu hjá mér og les langhelst þegar ég er að fara að sofa. Það er helst um jólaleytið þegar fólk almennt leggst í bækur að ég reyni að stauta mig fram úr einhverjum skræðum líka. Annars er það alltaf á huldu hversu vel ég sé læs. Þegar ég var sendur með bækur heim í grunnskóla til að lesa fyrir foreldra mína opnaði ég bókina og fór með fagurlega og efnilega sögu fyrir þau en þegar þau fóru að fylgjast nánar með textanum reyndist ég vera að flétta saman nýja sögu með helstu meginatriðum þeirrar sem í bókinni var. Í dag er þó næsta víst að minn megin lestur fari fram í gegnum símaskjá, á fréttaveitum, samfélagsmiðlum og þess háttar. Með samfélagsmiðlum hefur hins vegar þróast sú kúnst að lesa mál og myndir meira en áður þekktist, en á mörgum þessum miðlum er það gjarnan myndin sem grípur athygli manns og maður hefur jafnvel skoðað hana í dágóða stund áður en maður sér að henni fylgi einhver texti. Það er líkt og þegar fimm ára frændi minn var gripinn með klámblað og spurður hvað hann væri að gera með þetta, hann væri ekki einu sinni læs. Hann benti þó réttilega á að hver sem er gæti lesið myndirnar.

Einhverjir uppáhalds höfundar?

Svo ég vitni í Vilhelm Anton Jónsson, þá er Astrid Lindgren best. Það er aðallega vegna þess að hún hefur skrifað betri bækur en nokkur annar. En svona af þeim rithöfundum sem ég þekki persónulega verð ég að segja að Harpa Rún Kristjánsdóttir er í sérstöku uppáhaldi, en það hefur vissulega með það að gera að ég þekki ekki mjög marga rithöfunda.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, sérstaklega ef ég er að lesa stórar fræðibækur vilja þær vekja mann þegar þær detta ofan á mig í rúminu.

En að lokum afdaladrengur, hvernig bækur myndir þú sjálfur skrifa?

Metsölubækur.

 

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 120. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

Nýjar fréttir