-0.5 C
Selfoss

Kjúklinga og spínat canneloni / skyrterta með berjum

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar er Greta Sverrisdóttir.

Einn af mínum uppáhaldsréttum er kjúklinga og spínat cannelloni. Þetta er þægilegur réttur sem er auðvelt að setja saman og tilvalinn í huggulegt matarboð.

Kjúklinga og spínat canneloni

  • Fersk lasagnablöð – Þar sem ég hef ekki átt auðvelt með að finna cannelloni rör þá nota ég ferskar lasagnaplötur, sker þær í tvennt og rúlla þeim upp í rör. 
  • Rifinn kjúklingur (kaupi oft heitan tilbúinn kjúkling og ríf hann niður)
  • 1 poki af spínati
  • 1-2 dósir af góðri pastasósu, nota stundum Hunts Four Cheese. 
  • 1 ½ bolli rifinn ostur (gott að blanda Parmesan, Mozzarella og Cheddar)
  • 1-2 laukar – eftir smekk
  • Hvítlaukur að smekk –  smátt saxaður eða pressaður.

Ég hreinsa kjúklinginn af beinunum og ríf hann niður með tveimur göfflum og set í skál. Sker niður grænmetið, steiki á pönnu þar til það er mjúkt og bæti hvítlauknum út í síðast svo hann brenni ekki á pönnunni. Tek pönnuna af hitanum og hræri síðan kotasælunni út í ásamt spínatinu.  Síðan bæti ég rifnum kjúklingnum út í blönduna og um helmingnum af rifna ostinum.  Krydda með salti og pipar.

Set smá pastasósu neðst í eldfast mót og byrja síðan að fylla rörin og raða ofan á sósuna.  Set vel í hvert rör, betra að þau séu vel full.  Raða þeim síðan þétt í mótið og ef ég er með afgangsfyllingu, treð ég henni inn í rörin frá hlið og set meðfram.

Síðan helli ég afgangnum af pastasósunni yfir rörin og hyl þau alveg, dreifi síðan afgangnum af ostinum yfir og baka í 180 gráðu heitum ofni í um 25 mínútur.

Með þessu er frábært að hafa gott, ferskt salat og hvítlauksbrauð að eigin vali.

Eftir svona máltíð er gott að fá ferska skyrtertu í eftirrétt.

Skyrterta með berjum

  • 1 stór dós af vanilluskyri – má líka nota crème brúlúe (nota Ísey)
  • ½ l rjómi
  • Lu kanilkex – 1 pk
  • 50 gr. smjör
  • Frosin berjablanda eða kirsuberjasósa í fernu
  • Þeyti rjómann og blanda skyrinu varlega saman með sleif.

Myl Lu-kexið  (ég nota oft matvinnsluvél) og bræði smjörið út í og dreifi síðan kexinu í botninn á fallegu formi, þrýsti því niður til að gera þéttan botn.

Dreifi síðan rjóma/skyrblöndunni yfir botninn og kæli kökuna í ísskáp.

Ef þið notið frosnu berjablönduna, þá þarf að setja hana í pott, leyfa henni að sjóða smá saman þar til hún verður að sósu – þar sem berjablandan er smá súr má setja smá sætuefni út í hana, annað hvort sykur eða annað sætuefni að vild.  Setjið sósuna út á kökuna þegar sósan hefur kólnað, eða bara rétt áður en hún er borin fram.  Sama með kirsuberjasósuna úr fernunni, henni er bara hellt yfir kökuna.

Nýjar fréttir