-10.9 C
Selfoss

Skottulína

Vinsælast

Bómull og ull er einstaklega skemmtileg garnblanda, létt, hlý, mjúk og áferðafalleg. Uppskrift vikunnar er prjónuð úr garninu Esther frá Permin en blandan er 55% ull og 45% bómull. Peysan er prjónuð ofanfrá og niður og þannig er auðvelt að breyta henni í kjól ef vill. Við notum tvo liti og völdum mislitt garn í rendur til að fá meira “líf” í peysuna.

Stærðir: 4-6-8 ára

Efni: Esther 2-2-3 dk í aðallit, 1 dk í rendur. Prjónar no 3,0, 40 sm, 60 sm og ermaprjónar. Prjónamerki. 1 tala.

Athugið að eftir fyrstu 2 rendur eru alltaf prjónaðar 8-9-10 umf sléttar í aðallit og 3 í randalit. Útaukningar og úrtökur eru alltaf gerðar í annarri umferð randalits.

Uppskrift:

Fitjið upp með randalit 74-80-88 l og prjónið garðaprjón, fram og til baka alls 8-8-10 umferðir (4-4-5 garðar). Skiptið í aðallit, tengið í hring og prjónið slétt prjón og aukið í fyrstu umferð út um 16-20-24 l jafnt yfir umferðina, alls 90-100-112 l á prjóni.

Prjónið 4-5-6 umferðir með aðallit, svo 3 umferðir í randalit og aukið í miðjuumferðinni um 18-20-28 l (eftir 5-5-4. hverja lykkju) þá eru alls 108-120-140 l á prjóni.

Prjónið 6-7-8 umferðir með aðallit, svo 3 umferðir í randalit og aukið í miðjuumferðinni um 18-24-28 l (eftir 6-5-5. hverja lykkju) þá eru alls 126-144-168 l á prjóni.

Prjónið 8-9-10 umferðir með aðallit, svo 3 umferðir í randalit og aukið í miðjuumferðinni um 21-24-21 l (eftir 6-6-8. hverja lykkju) þá eru alls 147-168-187 l á prjóni.

Prjónið 8-9-10 umferðir með aðallit, svo 3 umferðir í randalit og aukið í miðjuumferðinni um 21-21-17 l (eftir 7-8-11. hverja lykkju) þá eru alls 168-189-204 l á prjóni.

Prjónið 4-5-6 umferðir með aðallit, svo 3 umferðir í randalit og aukið í miðjuumferðinni um 14-15-12 l (eftir 12-15-17. hverja lykkju) þá eru alls 182-200-216 l á prjóni.

Prjónið 4-5-6 umferðir með aðallit, setjið þá 40-44-48 l á hjálparnælu, fitjið upp 8-8-10 l í handvegi, prjónið 51-56-60 l, setjið næstu 40-44-48 l á hjálparnælu, fitjið upp 8-8-10 l í handvegi, prjónið 51-56-60 l (alls 122-128- l á prjóninum). Setjið prjónalykkju mitt á milli lykknanna sem fitjaðar voru upp undir handvegi.

Haldið áfram með aðallit þar til komnar eru 8-9-10 umferðir, skiptið þá í randalit og aukið í miðjumferðinni um 1 l sína hvoru megin við prjónamerkið þannig að fyrsta kemur 1 l á undan merkinu og seinni 1 l á eftir merkinu. Þannig er aukið út í hverri litarönd niður allan bolinn.

Prjónið þar til alls eru komnar 13 rendur frá hálsmáli. Prjónið 8-9-10 umf einlitar, 8-8-10 umferðir garðaprjón (4-4-5 garðar) og 7-8-9 umf einlitar. Brettið einlita kantinn inn og saumið eða heklið hann við síðustu umferðina fyrir garðaprjónskantinn. (Þið getið fellt af og saumað svo við, en ég kaus að hekla með keðjulykkjum þannig að farið er í gegnum lykkjuna á prjóninum og lykkjuna á bolnum).

Færið ermalykkjur af hjálparnælu yfir á prjón og takið upp 10-10-12 l í handvegi (það eru teknar 2 auka l, ein hvoru megin við uppfitjuðu lykkjurnar til að síður myndist gat) og prjónið áfram þannig að rendurnar haldist 8-9-10 umf í aðallit og 3 umf í rendur. Setjið prjónamerki undir miðri ermi og takið út í miðjuumferð randar þannig að 2 l eru prjónaðar saman þegar 1 l er að merkinu og eftir 1 l frá merkinu. Prjónið þar til alls eru komnar 12 rendur frá hálsmáli. Prjónið 8-9-10 umf í aðallit þá 8-8-10 umf garðaprjón með randalit og loks 7-8-9 umf einlitar. Brettið inn og gangið frá eins og á bol.

Heklið fl meðfram görðunum á hálsi, 1 fl í hvern garða, heklið 8 ll, 1 kl í neðstu fl, 10 fl utan um keðjulykkjubogann, 1 fl. Slítið frá.

Gangið frá endum og festið fallega tölu á.

Uppskrift:  Þóra Þórarinsdóttir.

 

Nýjar fréttir