1.7 C
Selfoss

Svipmyndir af Sveitanámskeiðum

Vinsælast

Frístundastarf í Árborg blómstrar. Inni á nýjum frístundavef árborgar geta bæði börn og fullorðnir valið um margskonar frístundastarf í sveitarfélaginu.

Ein nýjungin í frístundastarfi í Árborg eru Sveitanámskeið GobbiGobb. Þau hófu göngu sína síðasta sumar og gengu vonum framar að sögn Sjafnar Þórarinsdóttur tómstundafræðings, en hún er manneskjan á bak við Sveitanámskeiðin. „Oft þarf eitthvað til að ýta manni út fyrir þægindarammann og yfir á nýjar brautir, og fyrir mig var það covid“ segir Sjöfn, en GobbiGobb var stofnað sem fjölskylduvæn hestaleiga sem ætlaði að stíla inn á erlenda ferðamenn. „Þegar heimsfaraldurinn skall á þá ákváðum við að fara nýjar leiðir og ég sé sko ekki eftir því. Ég segi stundum að covid sé það besta sem hefur komið fyrir mig.“ segir Sjöfn og brosir við. „Námskeiðunum var strax vel tekið og núna í sumar var fullt hjá okkur. Þetta er klárlega besta vinna sem ég hef haft og það eru forréttindi að vinna svona skemmtilegt og gefandi starf.“

Því ber að fagna sem vel gengur en hver er lykillinn á bak við velgengnina? „Góð spurning. Áherslan hjá okkur er að mæta krökkunum þar sem þau eru. Sumir þurfa mikið utanumhald á meðan aðrir þurfa bara smá stuðning í upphafi, enn aðrir þurfa krefjandi verkefni til að blómstra. Eins reynum við að stíla inn á áhugasvið krakkanna hverju sinni. Ég get ekki sagt að morgni dags hvað við munum gera á námskeiðinu þann daginn. Það fer eftir veðri og vindum, bókstaflega suma daga. Nestistíminn er samt alltaf á sínum stað,“ segir Sjöfn kímin.

Hvað er gert á Sveitanámskeiðunum?

„Við byrjum alltaf daginn í hring og kynnum okkur og endum í hring og förum yfir það sem við gerðum þann daginn. Þess á milli gerum við eitt og annað. Við vinnum mikið með hestana, við erum ekki endilega að fara á bak heldur þarf að kemba þeim, greiða þeim og læra að umgangast þá. Svo förum við niður í fjöru að veiða hornsíli og vaða. Við gefum gæsunum brauðafganga og sinnum hænunum. Við erum með þrjá hænuunga og þrjá andarunga. Einn af andarungunum fannst yfirgefinn á Selfossi og við tókum hann að okkur. Hann fékk nafnið Jóakim Aðalönd þangað til við komumst að því að hann er stelpa, og fékk þá nafnið Andrésína. Núna í ár erum við líka með tvíbura-folöld  á bænum og annað þeirra drekkur mjólk úr pela. Við endum námskeiðin alltaf á því að fara í ratleik og grilla sykurpúða.“

Með henni á námskeiðinu starfa vaskir krakkar úr vinnuskóla Árborgar.„ Sveitarfélagið á hrós skilið fyrir að styðja framtak eins og mitt með því að leyfa mér að fá krakka úr vinnuskólanum. Það hjálpar mikið til og er mjög hvetjandi,“ segir Sjöfn og heldur áfram: „ Ég brenn fyrir barnastarf og mér finnst fagmennskan skipta öllu máli þegar kemur að því að vinna með krökkum. Það skiptir ekki höfuð máli hvað er gert, heldur hvernig það er gert. Leiðbeinendur í frístundastarfi verða oft helstu fyrirmyndir krakkanna þannig að ábyrgð þeirra er meiri en fólk gerir sér grein fyrir. Það er mikilvægt að leiðbeinendur átti sig á þessu og geti lesið krakkana til að sjá hvað þeir þurfa á að halda. Þegar krakkarnir finna að þeir mega taka pláss, að hlustað sé á þá og tekið eftir því sem þeir gera og hrósað fyrir það sem vel er gert, þá gerast undraverðir hlutir“ segir Sjöfn en bætir strax við: „Ég er reyndar ekki með leiðbeinendur á námskeiðunum hjá mér, heldur rokkstjörnur. Þau sem vinna á námskeiðunum fannst orðið leiðbeinandi svo óspennandi að ákveðið var að taka upp alveg nýtt orð. Það skapar mjög skemmtilega stemningu að vera með rokkstjörnur og ég fæ reglulega spurninguna: Hvernig verður maður rokkstjarna?“

Núna eru Sveitanámskeið sumarsins búin, hvað tekur þá við hjá GobbiGobb? „Ég er með hausinn stútfullan af allskonar hugmyndum sem mig langar að hrinda í framkvæmd. Stóri draumurinn er að aðstaðan hérna verði notuð fyrir námskeið og skemmtilegheit meirihluta ársins. Næst á dagskrá er samt smá sumarfrí hjá mér og svo tekur við leikjanámskeið í Selfosskirkju eftir verslunarmannahelgi.“ En Sjöfn starfar einnig sem æskulýðsfulltrúi í Selfosskirkju. „Ég tók við starfinu um áramótin og það var vissulega áskorun að koma inn á miðju starfsári og í miðjum heimsfaraldri en þetta fór samt vel af stað miðað við aðstæður. Krakkarnir í kirkjunni eru alveg frábærir og ég hlakka til að hefja starfsveturinn“. Fjölbreytt barnastarf er í Selfosskirkju. Þar eru starfandi barna- og unglingakórar undir stjórn Editar Molnár. Auk þess er sunnudagaskóli fyrir yngstu börnin. Vikulega er starf fyrir 6-9 ára og tíu til tólf ára krakka og unglingarnir eru með fundi eitt kvöld í viku. „Í kirkjustarfinu er markmiðið að syngja saman og hafa gaman og blanda inn í það fræðslu og verkefnum. Mig langar að vinna markvisst með félagsfærni í starfinu. Þar sem ég hef líka mikinn áhuga á jákvæðri sálfræði langar mig að flétta saman jákvæðri sálfræði og kristnum gildum og prófa mig áfram með það. Það er nefnilega eitt og annað sem kristin gildi boða sem nýjustu vísindi eru að renna stoðum undir.“ Segir Sjöfn og það er greinilegt að hún veit um hvað hún er að tala. „Áherslan er samt sú sama og á sveitanámskeiðunum, að mæta krökkunum þar sem þeir eru og leyfa þeim að njóta sín,“ bætir hún við í lokin.

Í gegnum þetta viðtal sést vel að Sjöfn hefur ástríðu og metnað fyrir því sem hún gerir. Það er mikill hagur fyrir börnin í sveitarfélaginu að hér sé einhver starfandi sem brennur fyrir þau og er óhræddur við að prófa sig áfram og fara ótroðnar slóðir. Sveitanámskeið GobbiGobb verða aftur á sínum stað sumarið 2022 og víst er að einhverjir krakkar eru nú þegar farnir að telja niður.

 

Nýjar fréttir