-2.2 C
Selfoss

Vel heppnaðar frjálsíþróttasumarbúðir á Selfossi

Vinsælast

Frjálsíþróttasumarbúðir FRÍ voru haldnar á Selfossi dagana 27. júní – 1. júlí. Metþátttaka var þetta árið en rúmlega 60 börn á aldrinum 11 – 15 ára komu í sumarbúðirnar. Sumarbúðirnar heppnuðust mjög vel og fóru krakkarnir ánægðir heim. Börnin komu víða að í ár eða af öllu Suðurlandi, alls staðar af höfuðborgarsvæðinu, Patreksfirði, Hólmavík, Eyjafirðinum og Búðardal.  Það var sérstaklega gaman hve mörg börn voru að prófa frjálsar í fyrsta skipti í sumarbúðunum.

Markmið sumarbúðanna er að kynna og breiða út frjáls-íþróttir á Íslandi. Dagskráin var mjög fjölbreytt, til að mynda voru kvöldvökur, leikir, sundferðir, bíóferð í Bíóhúsið og fleira í bland við æfingar. Eurovisionfarinn og Gagnamagnsmeðlimurinn Stefán Hannesson spjallaði og svaraði spurningum barnanna. Einnig fræddu frjálsíþróttahjónin Kristín Birna Ólafsdóttir og Mark Johnson okkur um tækifærin og þær upplifanir sem íþróttin hefur fært þeim í lífinu.

Sumarbúðirnar fóru fram við frábærar aðstæður þar sem stutt er í alla aðstöðu, til að mynda gistiaðstöðuna í Vallaskóla, frjálsíþróttavöllinn, íþróttahúsin og sundlaugina. Við viljum þakka Sveitarfélaginu Árborg og Umf. Selfoss fyrir veitta velvild í garð búðanna.

Sumarbúðirnar gegna mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Sumarbúðunum lauk með velheppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum þar sem  persónulegir sigrar náðust og margar bætingar litu dagsins ljós. Eftir mótið var haldin grillveisla og fengu krakkarnir viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku í skólanum. Krakkarnir kvöddust sátt og sæl eftir skemmtilega viku.

Frjálsíþróttabúðirnar vilja þakka öllum þeim fjölda fyrirtækja sem lögðu þeim lið, sá stuðningur er ómetanlegur, en þau voru: MS, Nettó, Sölufélag garðyrkjubænda, Kjúklingabúið Vor, Fiskverslun Suðurlands, Sláturfélag Suðurlands, Almar bakari, GK bakarí, Myllan, Kjörís og Kökugerð HP.

Takk fyrir okkur.

Ágústa og Fjóla Signý,
yfirumsjónarmenn
Frjálsíþróttasumarbúðanna á HSK-svæðinu.

Nýjar fréttir