-4.1 C
Selfoss

Krakkapeysa – Bjartur

Vinsælast

Uppskrift vikunnar er krakkapeysa sem hentar vel bæði úti og inni. Garnið er Luna, yndisleg endurunnin ull frá Permin sem fæst í fjölda fallegra lita. Peysan er létt og þjál og hentar jafnt drengjum sem stúlkum. Hún er prjónuð frá hálsmáli og niður, sem er þægilegt ef maður vill máta reglulega og kanna hvort sídd og vídd sé eins og best verði á kosið.

Stærðir: 8-10-12 ára

Efni: 4-4-4 dk Luna, endurunnin ull. 60 sm prjónar no 3,0 og 4,0, ermaprjónar no 4,0, sokkaprjónar no 3,0. Prónamerki, prjónanælur.

Mynstur:
Prjónað er tvöfalt perluprjón, þ.e. 2 sl, 2 br, tvær umferðir og svo 2 br, 2 sl, tvær umferðir. Alls eru prjónaðar 19 umferðir af tvöföldu perluprjóni þannig að endað er á stakri umferð. Prjónið næst 1 umf sl, 1 umf br, 1 umf sl, 1 umf br. Endurtakið þessar 23 umferðir og byrjið á 2 umferðum eins. Athugið að láta sléttar og brugnar lykkjur standast á í fyrstu umferð eftir garðana, þannig að sléttar lykkjur komi þar sem sléttar voru í stöku umferðinni fyrir ofan garðana.

Uppskrift:
Peysan er prjónuð frá hálsmáli og niður. 

Fitjið upp 80-84-88 l á prjóna no 3,0, tengið í hring og prjónið stroff, 2 sl, 2 br alls 12 umferðir. Skiptið yfir á prjóna no 4,0 og prjónið eina umferð slétta og aukið um 8 l jafnt yfir umferðina (88-92-96 l á prjóninum). Setjið prjónamerki við upphaf umferðar, eitt eftir 14-14-16 l, eitt eftir 30-32-32 l og loks eitt eftir 14-14-16 l. Prjónið nú samkvæmt mynstri, en síðasta lykkja framan við prjónamerki og fyrsta aftan við eru alltaf prjónaðar sléttar. Útaukningar eru gerðar í annarri hverri umferð, framan við sléttu lykkjurnar við prjónamerkin. Athugið að þegar útaukning er gerð er bandið milli lykknanna tekið upp og því snúið til hægri framan við prjónamerkið en til vinstri aftan við það. 

Prjónið þannig þar til alls eru 248-268-288 l á prjóninum. Í næstu umferð eru ermalykkjur settar á nælu, takið aðra sléttu lykkjuna með á næluna beggja megin (alls 56-60-66 l á nælunni) fitjið upp 6 nýjar lykkjur í ermagapið og gerið eins hinum megin. Prjónið áfram í hring og haldið mynsturprjóninu þar til peysan mælist frá hálsmáli 43-46-48 sm prjónið þá eina umferð slétta, skiptið yfir á prjón no 3,0 og prjónið stroff, 2 sl, 2 br, alls 12-14-14 umferðir. Fellið af.

Færið ermalykkjurnar yfir á prjón no 4,0 og takið upp 6 l við samskeytin við bolinn (alls 62-66-72 l á prjóni). Setjið merki við miðju samskeytanna. Prjónið áfram skv mynstri, en í 7-8-9 hverri umferð eru 2 l prjónaðar saman þegar 3 l eru eftir af umferðinni og aftur eftir fyrstu l umferðar. Athugið að halla úrtökunum hvorri í sína áttina, þannig verður áferðin fallegri. 

Haldið úrtökum áfram þar til 46-48-52 l eru á prjóninum. Prjónið þar til ermi mælist 31-33-36 sm frá handvegi. Prjónið eina umferð slétta og fækkið jafnt yfir prjóninn um 6-8-8 l (alls 40-40-44 l á prjóni). Prjónið stroff 2 sl, 2 br, alls 9-10-10 umferðir. Fellið af.

Gangið frá endum, skolið úr mildu sápuvatni.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

Nýjar fréttir