-4.4 C
Selfoss

Team Rynkeby góðgerðarverkefnið

Vinsælast

Team Rynkeby er samevrópskt góðgerðarverkefni sem fagnar 20 ára afmæli á árinu 2021. Það var árið 2017 sem íslenskt lið tók í fyrsta sinni þátt í verkefninu.  Við hittum Gunnar Bjarka Rúnarsson, verslunarstjóra hjá Byko og spurðum aðeins út í málið, en hann er einn af þátttakendum í íslenska liðinu í ár.

Markmiðið að safna fyrir börn með alvarlega sjúkdóma

Hvernig verður maður liðsmaður í Team Rynkeby liðinu? „Til að taka þátt í verkefninu þarf fólk að sækja um með formlegum hætti á vefsíðu www.teamrynkebyisland.is og í framhaldinu er liðið valið og skipað í byrjun september ár hvert.  Þau sem valin eru í liðið hefjast síðan handa við að safna styrkjum t.d. hjá fyrirtækjum og stofunum og vinna að verkefninu á ýmsan annan hátt. Í ár eru þátttökuliðin 59 með rúmlega 2300 hjólurum og 440 manna aðstoðarliði frá öllum Norðurlöndunum, Þýskalandi, Sviss ásamt einu samevrópsku liði.  Markmiðið er það sama hjá öllum liðunum sem er að safna styrkjum sem allir fara til barna með alvarlega sjúkdóma í hverju landi fyrir sig,” segir Gunnar Bjarki.

Íslenska liðið

„Íslenska liðið er skipað 38 hjólurum og 11 sem eru í aðstoðarliði,“ segir Gunnar Bjarki aðspurður um fjölda liðsmanna frá Íslandi. Eru þetta allt vanir hjólreiðamenn sem veljast í liðið? „Nei, aldeilis ekki. Eitt af markmiðum Team Rynkeby verkefnisins er að liðið sé byggt upp af fólki úr sem flestum atvinnugreinum, á öllum aldri og sem jafnastri skipting milli kvenna og karla.  Þannig að það er ekki ætlast til þess að liðið sé byggt upp af afburðar fólki í hjólreiðum.”

Miklar æfingar að baki hjá keppendum

Eins og áður sagði eru ekki endilega allir sem koma að verkefninu afburðafólk í greininni. Við spyrjum Gunnar hvernig sé að takast á við svona áskorun. „Þetta er heilmikið auðvitað en mikill stuðningur af félögunum í liðinu og liðsheildin góð. Í vetur höfum við ekki getað æft saman vegna Covid þannig að við erum við búin að vera á hjóla hvert og eitt.  Við náðum þó að hafa sameiginlegar æfingar á trainerum í gegnum tölvu. Þær æfingar fóru fram á hjólaforritinu Zwift. Þannig náðum við að hjóla saman þótt ekkert okkar væri á sama stað. Frá því í byrjun apríl höfum við verið að hjóla saman úti alla þriðjudaga og laugardagsmorgna.  Við vorum líka með skylduæfingar þar sem lengsta æfingin var 150 km æfing.  Eins og áður sagði hjóla allir alla leiðina þannig við æfum okkur að hjóla þétt, hvert á eftir öðru til að nýta skjólið en við þurfum líka að læra að treysta hvert öðru algjörlega því við óvæntar breytingar inn í miðjum hóp geta farið illa.”

Íslensk fyrirtæki stutt myndarlega við verkefnið

Aðspurður um hvernig gangi með að safna styrkjum segir Gunnar: “Það hafa fjölmörg fyrirtæki stutt við bakið á okkur í gegn um tíðina. Ég get svo stoltur sagt frá því að BYKO kom mjög myndarlega að verkefninu í ár en þeir styrktu okkur um tvær milljónir sem er platínustyrkur. Í fyrra söfnuðust rúmlega 25 milljónir og allir styrkir sem safnast hafa hafa farið til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Alls hafa safnast rúmlega 75 milljónir frá upphafi, en Team Rynkeby er lang stærsti styktaraðili SKB. Þetta er góðgerðarverkefni sem á sér ekki hliðstæðu,” segir Gunnar Bjarki stoltur.

Íslandsferð 2021

Ef allt væri eðlilegt væri liðið að undirbúa sig að leggja af stað frá Danmörku og hjóla 1300 km frá Danmörku til Parísar á 8 dögum. Hinsvegar var ákveðið að hætta við ferðina hjá öllum 59 liðunum þetta árið eins og í fyrra vegna Covid-19.  Þess í stað mun liðið hjóla innanlands líkt og í fyrra þegar hringurinn var farinn.  Ferðin í ár hefst með því að taka þátt í KIA Gullhringnum á Selfossi laugardaginn 10. júlí n.k. Næstu daga mun liðið hjóla og keyra gegnum Vesturland og til Vestfjarða.  ,,Við verðum tvær nætur á Ísafirði og hjólum þar í kring seinni daginn.  Síðan fikrum við okkur til baka og endum ferðina svo í Reykjavík laugardaginn 17. júlí,’’ sagði Gunnar Bjarki að lokum.

Nýjar fréttir