-6.1 C
Selfoss

Framtíðin er að banka, í banka

Vinsælast

Í síðustu viku gerðu Svf. Árborg, ríkið og samtök atvinnulífsins samkomulag við Sigtún þróunarfélag um rekstur vinnustofu í Landsbankahúsinu á Selfossi, einu glæsilegasta húsi landsins.  Markmið samkomulagsins er:„…að styðja við og þróa áfram hugmyndafræðina bak við verkefni stjórnvalda, Störf án staðsetningar, sem gengur út á að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki ráðuneyta og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðunum.  Þá er verkefninu ætlað að draga úr ferðaþörf og styðja við aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Vegna mikils fjölda ríkisstarfsmanna sem lögheimili eiga í Sveitarfélaginu Árborg og nærliggjandi sveitar­félögum og starfa hjá ríkisstofnunum með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu eru væntingar um að tilraunaverkefnið geti skapað mikilvæga reynslu sem byggja má á til lengri tíma litið. Markmið Svf. Árborgar með þátttöku í verkefninu er að gera sveitarfélagið að betri búsetukosti, auka atvinnutækifæri og nýsköpun, byggja upp þekkingarklasa og auka hagnýtingu í þróun skrifstofu­rýma fyrir starfsfólk sveitarfélagsins, ásamt því að styðja við viðleitni stjórnvalda og atvinnulífs til þessarar uppbyggingar.“. Hér er því um að ræða afar mikilvægt byggðamál sem fellur eins og flís við rass að gildandi byggðaáætlun.

Bankinn vinnustofa

Til þess að gera fjarvinnuna skemmtilega og koma í veg fyrir einmanaleika starfsmanna, þarf að koma upp fjarvinnustöðvum þar sem fleiri fjarvinnustarfsmenn geta unnið saman og deilt kaffistofu og vinnuaðstöðu. Bankinn Vinnustofa mun mæta þeim þörfum að fullu og vel betur en það. Ég er einnig sannfærður um að verkefnið muni koma til með að auka aðdráttarafl Selfoss og Svf. Árborgar sem búsetukost fyrir fólk sem sækist eftir nútímalegu vinnuumhverfi og skapandi félagsskap. Hér er því um að ræða tækifæri til að skapa á Selfossi vinnusamfélag sem mun gefa sveitarfélaginu tækifæri til að taka forystu á landsvísu í nútíma atvinnuuppbyggingu.

Mig langar til að þakka Sigtúni þróunarfélagi, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samtökum atvinnulífsins fyrir framsýnina að taka þátt í og koma þessu stórkostlega verkefni á koppinn ásamt með Svf. Árborg.

Tómas Ellert Tómasson,
bæjarfulltrúi M-listans í Svf. Árborg

Nýjar fréttir