3.9 C
Selfoss

Hugsað sér til skilnings

Vinsælast

Kennsluaðferðin hugsandi skólastofa

Við unglingastig Grunnskólans í Þorlákshöfn störfum við tveir stærðfræðikennarar, Ragnar Örn Bragason og Ingvar Jónsson. Fyrir um tveimur árum sátum við fyrirlestur um kennsluaðferð sem okkur fannst áhugaverð. Við  höfðum verið með svipaðar hugmyndir í kollinum en vorum komnir stutt á leið með að innleiða þær í kennslu. Kennsluaðferðin heitir Hugsandi skólastofa og á rætur sínar að rekja til kanadísks kennara að nafni Peter Liljedahl.

Hugsandi skólastofa gengur út á samvinnu nemenda við að leysa stærðfræðileg vandamál. Þessi vandamál kalla á að nemendur séu lausnamiðaðir og skapandi og krefjast þess vegna meira af nemendum heldur en hin hefðbundna aðferðafræði. Oftast vinna hóparnir saman standandi við tússtöflu eða glugga vopnaðir einum túss og tusku. Rannsóknir Liljedahl sýna að ef nemendur standa við vinnu sína eykur það virkni þeirra og hugsun við vinnuna og túss og tuska draga úr hræðslu nemenda við það að skrifa niður hugmyndir sínar þar sem það sem þau skrifa eða teikna er ekki eins endanlegt. Það ýtir undir að nemendur geri mistök, stroki út og endurhugsi vandamálið. Að auki eflir hugsandi skólastofa tjáningu nemenda þar sem þau útskýra hugsanir sínar fyrir samnemendum og kennara þar sem kennari styður vinnu þeirra með spurningum hvort sem þær eru til þess að koma nemendum úr föstu spori eða til þess að dýpka skilning þeirra.

Nemendur unglingastigs hafa í vetur unnið mikið í hugsandi skólastofu í stærðfræðitímum. Við stærðfræðikennararnir ákváðum að þróa kennslu okkar og taka upp þessa kennsluaðferð þar sem hún hefur marga kosti í för með sér og gefur tækifæri á að efla mismunandi hæfni hjá nemendum hvort sem það tengist hæfniviðmiðum aðalnámsskráar eða lykilhæfni skólans. Vinnan hófst fyrir 2 árum síðan og hefur sú vinna gengið vel þrátt fyrir ákveðna hnökra í upphafi þar sem nemendum reyndist erfitt að aðlagast breytingum og læra að læra á nýjan hátt.

Miklar framfarir hafa sést hjá nemendum í hugsandi skólastofu sem og í hugarfari þar sem samhliða kennsluaðferðinni höfum við unnið með vaxtarhugarfar (growth mindset). Í vetur höfum við séð miklar framfarir hjá þeim nemendum sem hvað lengst hafa unnið í hugsandi skólastofu. Öryggi þeirra í að setja fram vinnu sína á tússtöfluna og rökræða við samnemendur hefur aukist mikið og gaman er að sjá hversu djúpt þau geta kafað í flókin verkefni á sínum eigin forsendum. Því teljum við að þessi kennsluaðferð muni gefa nemendum mörg mismunandi verkfæri í það sem þau munu taka sér fyrir hendur eftir útskrift.

Umsagnir nemenda um hugsandi skólastofu:

Anna Laufey Gestsdóttir

Þegar við vorum fyrst kynnt fyrir hugsandi skólastofu verð ég að viðurkenna að ég var ekki spennt. Èg var óvön að vinna með mismunandi fólki í stærðfræði og var satt að segja ekki opin fyrir því. Sem sýnir bara hvað þessi liður í stærðfræði hefur hjálpað mér að bæta mig. Hugsa út fyri kassann, þolinmæði, hugstormun og að segja mínar hugmyndir. Allt er þetta eitthvað sem lýsir því sem hugsandi skólastofa hefur kennt mér og mun nýtast mér virkilega.

Ingunn Guðnadóttir

Hugsandi skólastofa hefur kennt mér að hugsa út fyrir kassann, vinna með öðrum og koma mínum hugmyndum á framfæri. Stærðfræði er mjög fjölbreytt í þessum tímum og mikill sigur er unninn að leysa erfið dæmi á þennan hátt. Með vaxandi hugarfari hefur mér
tekist að tileinka mér þrautseigju og lært að takast á við mótlæti í námi.

Til aukin fróðleiks um hugsandi skólastofu:
https://www.peterliljedahl.com/btc
https://skolathraedir.is/2019/11/15/hvatt-til-hugsunar-i-staerdfraedi/

Nýjar fréttir