-3.2 C
Selfoss

NPA setrið hefur göngu sína á Suðurlandi

Vinsælast

NPA stendur fyrir notendastýrða persónulega aðstoð og er einn af valkostum þeirra sem þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs, standa til boða.

Viðkomandi gerir þá þjónustusamning við sitt sveitarfélag,  svo kallaðan NPA samning og hafa þá val um hvernig, hvar og af hverjum þjónustan er veitt. „Þetta er einmitt lykilatriði málsins. Það er frelsið sem einstaklingurinn öðlast og tækifæri til að vera þátttakandi í samfélagi á eigin forsendum til jafns við þá ófötluðu. segir Hafdís Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri NPA Seturs Suðurlands.

Ráðgjöfin er mikilvægur þáttur í þessum málum

Þær stöllur, Hafdís og Inga Sveinbjörg Ásmundsdóttir, mannauðsstjóri NPA Seturs Suðurlands hafa samanlagt mikla reynslu af málaflokknum en þær eiga sjálfar fötluð börn. „Við höfum staðið í réttindabaráttu fyrir börn okkar í á 3ja áratug og höfum yfirstigið margar hindranir. Við höfum skynjað að fólki finnst flókið að stíga inn í NPA þjónustuna því hún er í raun rekin eins og fyrirtæki.Í slíkum tilfellum getum við veitt ráðgjöf til fólks sem er að velta þessum málum fyrir sér og tekið að okkur rekstrarhluta samninganna óski viðkomandi þess. Það er til mikils að vinna í auknum lífsgæðum fyrir þá sem búa við einhverskonar fötlun,“ segja Hafdís og Inga.

Þátttaka í samfélaginu er öllum mikilvæg

Ég spyr þær um hver munurinn er fyrir notendur af NPA og hefðbundinni þjónustu fyrir fatlaða. „Það er himinn og haf. Tilbúið dæmi gæti verið að ákveðið væri að fara á leiksýningu. Sýningin er kannski frá 21 til 23. Akstursþjónustan hættir kl. 22 þannig að þú nærð hálfri sýningu og þarft þá að fara. Með NPA ferð þú  hvenær sem þér hentar að fara því þinn aðstoðarmaður sér til þess að þú komist frá a til b og aftur til a þegar erindinu er lokið. NPA veitir fötluðum aukin tækifæri á því að taka þátt í samfélaginu með ríkari hætti og slík þátttaka er öllum mikilvæg,“ segir Inga.

Markmiðið að einfalda þjónustuna

NPA setrið á Suðurlandi er þjónustufyrirtæki sem hefur stórar hugmyndir til framtíðar. „Markmiðið er að við munum sjá um að aðstoða fólk við reksturinn á NPA þjónustunni. Þannig að starfsfólkið vinnur hjá okkur og veitir notendum þjónustuna í anda hugmyndafræði NPA. Markmiðið er að para saman notendur og aðstoðarmenn. Við munum klæðskerasauma þjónustuna að hverjum og einum notanda miðað við hans þarfir og út frá hans óskum. Vinnuveitendaábyrgðin er svo okkar þannig að fólk þarf ekki að vera sérfræðingar í fyrirtækjarekstri til að njóta góðrar NPA þjónustu.“

Lítið fyrirtæki en stórt hjarta

Þær stöllur eru brattar og bjartsýnar með framtíðina. „Við ætlum okkur hægt af stað en erum komnar með tvo samninga nú þegar. Við erum lítið fyrirtæki með stórt hjarta og mikla þekkingu á málaflokknum. Við viljum hag þeirra sem þurfa á aðstoð að halda sem mestan. Það er kannski best að kynnast okkur á heimasíðunni npasetur.is. Það má svo alltaf bóka viðtal í ráðgjöf eða bara heyra í okkur hvort ekki sé eitthvað sem við höfum fram að færa til hagsbóta fyrir þá sem reiða sig á aðstoð í athöfnum daglegs lífs,“ segja Hafdís og Inga að lokum.

-gpp

Nýjar fréttir