5 C
Selfoss

Ég man ennþá eftir fyrstu heimsókninni á bókasafnið

Vinsælast

Brigitte Bjarnason er fædd árið 1959 og uppalin í Hamborg í Þýskalandi. Hún kom fyrst til Íslands árið 1982 sem skiptinemi. Árið 1992 flutti hún alfarið til Íslands. Fyrst bjó hún í Arnarneshreppi fyrir norðan en seinna á Neskaupstað, Borgarfirði eystri, á Egilsstöðum, á Grundarfirði og í Hafnarfirði. Árið 2017 flutti hún á Selfoss. Brigitte hefur sinnt ýmsum störfum í gegnum tíðina en starfar nú sem leiðbeinandi í leikskólanum Álfheimum.

 Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa skáldsöguna Olga eftir þýska rithöfundinn Bernhard Schlink sem skrifaði líka Lesarann sem var kvikmynduð með Kate Winslet í aðalhlutverki. Sagan gefur innsýn í líf ungrar kennslukonu í byrjun 20. aldar í austurhluta Þýskalands. Á þessum tíma höfðu konur ekki kosningarrétt og stéttaskipting kom í veg fyrir að hún giftist kærastanum sínum, ævintýramanninum Herbert.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Auk skáldsagna finnst mér gaman að glugga í bækur tengdar lífsspeki og mannlegri hegðun. Ég er engin glæpasagnaæta en hef samt lesið nokkra reifara. Eftirminnilegastir voru Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason og Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Aðrir íslenskir höfundar sem höfða til mín eru Kristín Marja Baldursdóttir, Auður Ava Ólafsdóttir, Ólafur Jóhann Ólafsson, Vilborg Davíðsdóttir og Gyrðir Elíasson. Af bókunum sem komu út fyrir jólum hef ég lesið Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttir og Eldarnir eftir Sigríði Haglín Björnsdóttur. Lýsingar hennar af hamfaragosi á Reykjanesi voru afar átakanlegar en þá var ekki byrjað að gjósa í Geldingardölnum. Af léttmeti finnst mér gaman að lesa bækur eftir Jojo Moyes og Jenny Colgan. Mér finnst ennþá best að hafa alvöru bók í höndunum og finna bókalyktina í staðin fyrir rafbækur. Til þess að bókahillurnar springi ekki utan af sér nota ég bókasöfn mikið. Á Borgarfirði eystri sá ég sjálf um bókasafnið sem var opið einu sinni í viku eftir hádegi. Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar var ég svo heppin að fá aftur vinnu sem bókavörður.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Foreldrar mínir voru ekki vanir að lesa bækur. Þau voru 7 og 10 ára þegar stríðið í Þýskalandi byrjaði 1939. Ég býst við því að aðgengi að bókum hafi ekki verið gott, sérstaklega á eftirstríðsárunum. Í sveitum og þorpum var bókmenningin ekki í hávegum höfð. Ég varð algjör lestrahestur strax í fyrsta bekk og var mjög stolt yfir því að hafa fengið bókasafnskort. Enn í dag man ég eftir fyrstu heimsókninni á bókasafnið. Ég vildi helst tæma hilluna en mátti bara taka fimm bækur í einu. Uppáhaldslesefnið voru bækur eftir Enid Blyton og ævintýrabækur eins og Grimms ævintýri eða ævintýri eftir Hans Christian Andersen. Mér finnst mikilvægt að börn alist upp við lestur og helst eiga foreldrarnir að byrja mjög snemma að lesa fyrir þau. Í leikskólanum er ég að vinna með tveggja ára börnum sem eru að verða mjög áhugasöm um bóklestur. Mikilvægt er að lesa með leikrænum hætti og spyrja spurningar. Þá skapast umræður og lestrastundin verður skemmtilegri.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég er búin að venja mig á að lesa 30 til 60 mínutur áður en ég fer að sofa. Ef ég hef tíma og vil slaka á leggst ég líka á daginn í sófann og les.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Fyrir stuttu síðan fékk ég lánaða bókina Herbergi eftir Emmu Donoghue. Ég gat varla lagt hana frá mér og ég mæli hiklaus með henni.

En að lokum Brigitte, hvernig rithöfundur er þú sjálf?

Ég hef alltaf haft áhuga á bókmenntum og lært ritlist í fjarnámi. Árið 2011 kom út eftir mig smásagnasafn hjá þýsku forlagi, tveimur árum síðar bók með álfasögum frá Íslandi og 2019 bók um Hansakaupmenn á Íslandi. Ný bók er í vinnslu og kemur út næsta vor 2022. Þetta eru allt saman bækur sem tengjast Íslandi. Á Borgarfirði eystri bjó ég nálægt Álfaborginni og fékk áhuga á álfasögum sem ég safnaði saman og  þýddi yfir á þýsku. Bókina um Hansakaupmenn á Íslandi skrifaði ég ásamt Kirsten Rühl sem vinnur sem leiðsögumaður. Hún er eins og ég frá Hansaborginni Hamborg og við kynntumst á Íslandi. Að skrifa þá bók var afar spennandi verkefni. Safnagáttin leitir.is var mikið notuð í rannsóknarvinnu okkar. Við vorum undrandi á því hve lítið er fjallað um þetta tímabil þegar margir Þjóðverjar auk Englendinga stunduðu viðskipti hér á landi. Draumaverkefnið mitt er að skrifa skáldsögu. Að skrifa bók er langhlaup og krefst þolinmæði. Að skrifa smásögur eða sagnfræðibækur hefur þann kost að hægt er að leggja handritið tímabundið til hliðar og taka pásu. Það er varla hægt með skáldsögu eða að minnsta kosti ekki æskilegt að mínu mati. Hugmyndir eru til staðar. Það þarf bara að byrja. Ég vil benda á að nýlega hef ég stofnað facebook hópinn Bókaspjall Selfoss sem er umræðuhópur um bækur. Þetta er ekki hámenningarlegur umræðuvettvangur heldur segir fólk úr öllum áttum frá því sem það er að lesa.

_______________________________________

Lestrarhestur númer 118. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

Nýjar fréttir