2.8 C
Selfoss

Góð aðsókn og áhugi á málþingi um biskupsfrúrnar

Vinsælast

Góð skráning er þegar orðin á málþing Hildar Hákonardóttur og Skálholts um biskupsfrúr fyrri alda og hefur fyrirlesturinn verið færður í Skálholtsdómkirkju vegna fjöldans. Allar sjö biskupsfrúr okkar daga mæta á málþingið en það eru Ebba Sigurðardóttir, Matthildur Jónsdóttir, Margrét Sigtryggsdóttir, Arndís Jónsdóttir, Kristín Guðjónsdóttir, Margrét Bóasdóttir og Guðrún Helga Bjarnadóttir.

Málþingið er haldið núna laugardaginn 19. júní og hefst kl. 10. Nítjándi júní er jafnan nefndur kvenréttindadagurinn í tilefni þess að 19. júní 1915 öðluðust konur fyrsta kosningarétt með breytingu á stjórnarskrá Íslands. Daginn fyrir málþingið verður Ragnheiðarganga í Skálholti með Friðriki Erlingssyni rithöfundi og hefst hún klukkan þrjú. Best er að sjá allar upplýsingar og skrá sig á málþingið 19. júní og Ragnheiðargönguna 18. júní á samnefndum viðburðarsíðum á vefnum skalholt.is. Þess má geta að í ár eru liðin 380 ár frá fæðingu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og 250 ár frá fæðingu Valgerðar Jónsdóttur, síðustu biskupsfrúar sem Hildur fjallar um.

Margar áhrifamiklar konur koma við sögu á málþinginu og eru þær konur í forgrunni sem Hildur Hákonardóttir hefur fjallað um í bókum sínum „Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?“ Síðara bindi þessara bóka kom nýverið út og hafa þær vakið athygli fyrir margt en ekki síst þann frásagnarstíl og aðferðir Hildar í samtölum hennar við þessar sögulegu konur. Bækurnar byggja auk þess á umfangsmiklum athugunum, samtölum og rannsóknum hennar. Auk biskupsfrúa fyrri alda í Skálholti hefur Hildur tekið með til samanburðar um stöðu kvenna fáeinar aðrar samtíðarkonur. Hún flytur aðal erindið og svo munu þær Þórunn Valdimarsdóttir, Unnur Jökulsdóttir og sr. María Ágústsdóttir bregðast við með stuttu innleggi. Eftir hádegi verða umræður, fyrirspurnir og samtal um áhrif þessara kvenna, hverrar og einnar, í sögu kirkju og þjóðar.

 

Nýjar fréttir