7.3 C
Selfoss

Samkeppnishæf á alþjóðamarkaði

Vinsælast

Nýsköpun stuðlar að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi eða uppgötvunum. Nýsköpun er mikilvægur þáttur í allri framþróun, í samkeppni og að fyrirtæki hér á landi myndi sér sérstöðu gagnvart fyrirtækjum á alþjóðamörkuðum.

Stjórnvöld hafa gert ágætlega hingað til og er nýsköpunarumhverfið á Íslandi nokkuð gott. Hægt er að sækja um í fjölmarga sjóði sem styðja við nýsköpun, bæði innlenda sem og Evrópska sjóði.  Til að mynda heldur Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) utan um marga af þessum sjóðum. Þar má meðal annars nefna að hægt er að leggja inn umsókn um skattafrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarverkefna en einnig heldur Rannís utan um tækniþróunarsjóðina sem sem margir þekkja.

Árið 2019 var mótuð nýsköpunarstefna sem er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar og byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Stefnunni er ætlað að marka sýn fyrir Ísland til ársins 2030 og í henni er sett fram það markmið að árið 2030 verði Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra auk þess sem Ísland verði í fremst meðal jafningja þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja. Það er ávallt af hinu góða þegar slíkar stefnur eru settar og þeim þarf að framfylgja og það þarf að fjármagna þær. Því þegar litið er á starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og það borið saman við starfsumhverfi fyrirtækja í öðrum löndum þá kemur í ljós að, framleiðsluþættir íslenskra fyrirtækja er almennt hærri en annarsstaðar. Til þess að innlend fyrirtæki geti verið samkeppnishæf á alþjóðamörkuðum þurfum við að tryggja þeim hlutfallslega yfirburði á einhverjum sviðum gagnvart öðrum mörkuðum.

Með öflugri nýsköpunarstefnu og stöðugri framfylgni hennar er hægt að tryggja markvissa og skilvirka framþróun í landinu. Þannig er hægt að hlúa að samkeppnishæfni fyrirtækja við önnur lönd. Sem dæmi þá getum við verið of íhaldssöm þegar kemur að breytingu á lögum og reglugerðum. Lög og reglugerðir sem voru settar og standast ekki þá framþróun sem á sér stað erlendis. Það er því mín skoðun, að við sem 375.000 manna þjóð eigum að geta haft hlutfallslega yfirburði gagnvart öðrum ríkjum þegar kemur að; a) lagasetningu og bættu regluverki, b)  með því að gera skattkerfið skilvirkara og meira hvetjandi í þágu framþróunar og c) með skilvirkari stjórnsýslu sem stuðlar að og liðkar fyrir nýsköpun.

Klárum dæmið og blásum til sóknar!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir

Lögfræðingur og frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Framsóknar í Suðurkjördæmi sem fer fram þann 19. júní n.k.

 

Nýjar fréttir