-12.6 C
Selfoss
Home Fréttir Langur ómennskur texti höfðar ekki til mín

Langur ómennskur texti höfðar ekki til mín

0
Langur ómennskur texti höfðar ekki til mín
Jón Snæbjörnsson.

Jón Snæbjörnsson er alinn upp í Laugardalshrepp og hefur búið þar í skólaþorpinu síðastliðin ár. Hann er byggingarverkfræðingur að mennt og starfaði sem slíkur á orkusviði verkfræðistofu í rúman áratug áður en hann sneri heim í sína sveit. Hann starfar í dag við kennslu og ýmis tilfallandi verkefni.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að rýna í Íslendingasögurnar, eftir að við fengum þær nýlega að gjöf með nútíma stafsetningu. Þar las ég fyrsta Króka-Refs sögu, er hefur verið mér hvað eftirminnilegust. Heima í Austurey var hluti bókasafns langafa míns, Arnórs Sigurjónssonar og las ég Íslendingasögurnar og Fornaldarsögur Norðurlanda, með eldri stafsetningu, er ég gat farið að lesa mér til yndisauka. Þar voru hetjusögurnar, ævintýraheimur er ég gat tengt við og gleymt mér við þann lestur. Við vorverkin í fjárhúsunum er ágætt að nýta sér hljóðbækur til að dreifa huganum. Þá hef ég verið að hlusta á bækur eðlisfræðingsins Richard P. Feynman. Þar eru efnistökin ólík öðrum höfundum á raungreinasviði, og umfjöllunin hans er hefur verið umdeild, breytist í tímans rás. Að lokum er rétt að nefna kennslubók Brunamálaskólans um slökkvistarf, rauða bókin. En ég hef síðastliðinn vetur verið í nýliðanámi hjá Brunavörnum Árnessýslu og er þessa dagana að lesa fyrir lokaprófið, með von um útskrif nú í sumar, þann 17. júní. Nám slökkviliðsmanna tekur á mörgum þáttum og hefir verið áhugavert uppbrot nú í vetur að fræðast um starfið og loksins komast í verklega tíma er samkomutakmarkanir hafa gefið tækifæri til þess.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Sagnfræðilegur fróðleikur, heimildarit eða sögulegar skáldsögur. Stórsaga. Ég stefndi á nám í sagnfræði eftir menntaskóla og hóf að lesa þungan sagnfræðilegan texta, er varð til þess að áhugi minn á að verða sagnfræðingur, hvarf að mestu. Þær bækur er ekki höfða til mín er langur ómennskur texti, hvort sem það er sagnfræðileg eða verkfræðileg viðfangsefni, staðlar. Verkfræðinámið sló á áhuga minn á lestri, vinna er krefst meiri íhugunar frekar en skilnings á texta, stílbragða. Því skráði ég mig að lokum í sagnfræði við HÍ með vinnu og tók þar fjölda námskeiða. Þar heillaði mig strax til dæmis heimspekileg forspjallsvísindi, Málsvörn Sókratesar og fleiri bækur. Ég er þeirrar skoðunar að menntun og bókalestur sé öllum nauðsynleg og sagnfræðinámið þar sem lesefnið er sett fram afmarkað og vel skilgreint, hvar er síðan leitað svara við rannsóknarspurningum, sé góður grunnur með öðru námi.

Fórstu snemma að lesa?

Ég las mikið sem barn. Hér man ég sérstaklega eftir að hafa lesið barnabækurnar um Lassý ásamt Frank og Jóa, bækur er ég gat nálgast hjá ömmu minni á Laugarvatni. Síðan voru bækur reglulega hluti af jólapökkunum, man þar sérstaklega eftir bókinni, Hringir í skógi, eftir Dalene Matthee, er ég las sem unglingur og hefur verið vakandi í minningunni síðan sem bók unglingsáranna.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég gef mér góðan tíma til að velja nýja bók til lestrar, og les hana þá gjarnan á sem stystum tíma, legg hana varla frá mér. Þá koma jólafrí sterk til sögunnar, til dæmis las ég Fjallkirkjuna í góðu jólafríi sem og Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Þá rifjast upp tímar í sagnfræðinni í HÍ, um sakleysi Bjarna Bjarnasonar og hvort kýr geta lekið, samkvæmt upptalningu sterbbúa.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Þeir eru allnokkrir, hér vil ég nefna sérstaklega bækur Björns Th. Björnssonar, Haustskip og Hraunfólkið. Í því samhengi má einnig nefna þríleik Bjarna Harðarson um Skálholt 18. aldar. Styrjaldabækur enska rithöfundarins Anthony Beevor er viðhalda áhuga er vaknaði í æsku við lestur ritraðar Almenna bókafélagsins um heimstyrjöldina síðari. Rétt er að nefna einnig suður-afríska rithöfundinn J. M. Coetzee. Að lokum vil ég benda á vefinn timarit.is, þar sem tíminn getur verið fljótur að líða við heimildaleit, eða almennan yndislestur. En ef bornir eru saman höfundarnir hér fyrir ofan má segja að ákveðinn undirtónn sé til staðar, mannlegur harmleikur sem hluti stærri atburðarásar, eða breytingatíma.

Hefur bóklestur rænt þig svefni?

Já, ég á erfitt með að ganga frá hálfkláruðu verki.

En að lokum nafni, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef áhuga á að skrifa yfirlitsrit eða endurminningar, hef gaman af lestri ævisaga hér úr sveit, til dæmis minningar Böðvars Magnússonar á Laugarvatni, Undir tindum og Páls Guðmundssonar frá Hjálmsstöðum, Tak hnakk þinn hest, bækur er saman voru kallaðar Tindabikkjan. Einnig má nefna hér fleiri sunnlenskar endurminningar, til dæmis Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur frá Efri-Steinsmýri, lífssaga baráttukonu. Hef unnið að B.A. ritgerð í sagnfræði um Laugarvatn, hvernig staður verður til, en aldrei gefst góður tími til að ljúka verkinu. Þá hef ég meðal annars rætt við Pálma Hilmarsson er starfað hefur sem húsbóndi við Menntaskólann að Laugarvatni í tæp 30 ár. Vonast ég til að skrá hugsanlega í nálægðri framtíð, minningar hans og hef gefið þeim vinnuheitið, Tak sæng þína og kodda.

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 117. Umsjón Jón Özur Snorrason.