-11.4 C
Selfoss

Skapandi leiklistarnámskeið fyrir börn, á Stað, Eyrarbakka

Vinsælast

Leikkonurnar Hera Fjord og Rebekka Magnúsdóttir verða með skapandi leiklistarnámskeið í sumar fyrir krakka á Eyrarbakka og nágrenni. Námskeiðið kallast ,,Listin að leika sér´´ – „Og það er akkurat það sem við ætlum að gera; leika okkur, og læra leiklist,“ segir Hera Fjord, einn umsjónarkvenna námskeiðsins.

 

Hera og Rebekka eru báðar menntaðar leikkonur og leikstjórar. Þær útskrifuðust frá skóla í London sem heitir The Kogan Academy of Dramatic Arts. Þegar þær voru loks báðar fluttar heim til Íslands aftur ákváðu þær að taka höndum saman og búa til vandað og skemmtilegt námskeið handa börnum. Þær hafa víðtæka reynslu í leiklistarkennslu ásamt því að vinna sjálfstætt sem leikkonur, leikstjórar, framleiðendur, höfundar og kennarar.

 

Afhverju Eyrarbakki?

Hera býr á Eyrarbakka og hefur gert um skeið. Hún tók strax eftir því að það vantaði meira framboð af leiklistarkennslu fyrir börnin hér á Suðurlandi. „Það er ákveðinn hópur barna sem finnur sig ekki í íþróttastarfi eða þeim tómstundum sem boðið er upp á, sá hópur ungmenna er vanræktur í Árborg og væri óskandi að hér væri boðið upp á fleiri listgreinar allt árið um kring. Niðri við ströndina þurfa foreldrar líka stöðugt að skutla börnunum sínum á Selfoss og viljum við auka framboð námskeiða þar. Þess vegna ákváðum við að fá Ungmennafélag Eyrarbakka með og hafa námskeiðið á Stað, Eyrarbakka,“ segir Hera ákveðin.

 

„Eyrarbakki, Stokkseyri og sveitirnar í kring hafa upp á mikla sögu að bjóða og þær verða nýttar í handritaskrifum á námskeiðunum. Okkur fannst tilvalið að nota þennan efnivið fyrir krakkana til að búa til sín eigin leikrit og læra um söguna um leið.

Hvert námskeið endar á sýningu fyrir vini og vandamenn, þar sem við heyrum gamlar sögur fá nýtt líf í verkum krakkanna,“ segir Hera.

 

Frelsi til að prófa sig áfram í þáttum leikhússins

„Markmið námskeiðisins er að þátttakendur læri undirstöðuatriðin í leiklist, kynnist hugmynda- og samvinnu, hljóti aukna sjálfsþekkingu og samkennd, bæti sjálfstraust sitt og gleði. Börnin munu fá frelsi til þess að prófa sig áfram í þeim þáttum sem þeim þykja áhugaverðastir í leikhúsinu. Við einblínum á öruggt umhverfi þar sem við treystum hvoru öðru og þau geta prófað sig áfram með sínar hugmyndir. Nemendur koma að gerð handrits, leikstjórnar, búninga, sviðsmyndar, hljóðmyndar, sviðslýsingar auk þess að leika. Allir ættu því að fá fjölbreytta reynslu af þeim mörgu störfum sem leynast í leikhúsinu,“ segir Hera að lokum.

 

Nýjar fréttir