3.9 C
Selfoss

Hérna í þessum skóla höfum við eignast vini sem við munum sennilega halda í allt til æviloka

Vinsælast

Þrjátíu og sjö nýstúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni nýliðinn laugardag, 22. maí.  200 manns voru á útskriftinni, nýstúdentar og fjölskyldur þeirra, starfsmenn skólans sem og nokkrir aðrir sem komu að hátíðardagskránni svo og einnig tæknimenn frá Sonik þar sem athöfninni var streymt. Salnum var hólfaskipt og allar sóttvarnareglur viðhafðar.

Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Margrét María Ágústsdóttir frá Selfossi en hún var með aðaleinkunnina 9,39 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum. Semi dux nýstúdenta var Kristján Bjarni Rossel Indriðason frá Ysta-Koti í Rangárþingi eystra með aðaleinkunnina 9,29.  Hlutu þau, sem og fjöldi annarra nýstúdenta, viðurkenningar kennara og fagstjóra skólans fyrir afburðaárangur í hinum ýmsu greinum.  Nýstúdentar sem setið höfðu í stjórn nemendafélagsins Mímis hlutu og viðurkenningu fyrir störf sín.  Eins hlaut Kristján Bjarni fráfarandi stallari sérstaka stallaraviðurkenningu og einnig Raungreinaverðlaun HR. Hekla Steinarsdóttir frá Hellu, nýstúdent af Félags- og hugvísindabraut, hlaut sérstaka viðurkenningu skólameistara fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans og nemendafélagsins. Sindri Bernholt frá Hveragerði, nýstúdent af Náttúruvísindabraut, hlaut Menntaverðlaun HÍ, Almar Máni Þorsteinsson frá Hellu, nýstúdent af Náttúruvísindabraut, hlaut viðurkenningu Stærðfræðafélags Íslands og viðurkenningu Landlæknisembættisins fyrir árangur í heilsuáföngum svo og hlaut Kolbrá Hekla Guðjónsdóttir frá Selalæk í Rangárþingi ytra viðurkenningu Efnafræðifélagsins.

Jóna Katrín Hilmarsdóttir aðstoðarskólameistari starfaði sem skólameistari lungann úr vetrinum í leyfi Halldórs Páls Halldórssonar skólameistara og flutti hún ræðu skólameistara. Í máli hennar kom m.a. fram:  „Á erfiðum tímum kristallast tilgangur þess sem við sinnum í hversdeginum. Við förum í vinnu og skóla, við sinnum börnum og búi. Hversdagurinn er nefnilega dýrmætari en við gerum okkur oft grein fyrir; það gleymist í amstri dagsins. Að lifa á friðartímum í friðsömu landi sem tryggir börnunum okkar aðgengi að menntun og öllum þeim tækifærum sem hugur þeirra stefnir til er mikið dýrmæti.“

Í ræðu fulltrúa nýstúdenta, Kristjáns Bjarna, kom m.a. fram:  „Hérna í þessum skóla höfum við eignast vini sem við munum sennilega halda í allt til æviloka. Vinirnir muna nýta tækifærin til að hittast og spjalla um allt það sem skiptir minna máli eins og pólitík og börnin en svo mun samtalið auðvitað leiða til baka á gömlu góðu tímana þar sem við gerðum svo marga mismunandi og misgáfulega hluti.“

Halldór Páll skólameistari ávarpaði nýstúdenta í lok hátíðardagskrár og sagði meðal annars:  „Ræktið vináttu ykkar, hún er til lífsstíðar.  Það er lífsstíll að vera ML-ingur.  Leitist við að hittast sem oftast í þeirri veröld sem er utan holtsins okkar, en því er ekki að neita að á stundum leitar að manni sú hugsun að ekkert sé utan dalsins fagra. Hér er ólýsanlega fögur veröld í alheimi, í eiginlegri sem huglægri merkingu. Hér er lífið !“

Veitt var úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, fyrrverandi skólameistarahjóna, að Rannveigu (Bubbu) viðstaddri, hið fjórtánda sinni þeim “nýstúdentum sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi” eins og stendur í stofnskrá að skuli gera.  Styrki hlutu:

Margrét María Ágústsdóttir, nýstúdent af Félags- og hugvísindabraut, Kristján Bjarni Rossel Indriðason, nýstúdent af Náttúruvísindabraut, Jóna Guðlaug Guðnadóttir frá Drangshlíðardal í Rangárþingi eystra, nýstúdent af Náttúruvísindabraut og Sindri Bernholt frá Hveragerði, nýstúdent af Náttúruvísindabraut.

Dux scholae veturinn 2020-2021 voru tveir og er þar horft til árangurs allra nemenda skólans yfir veturinn. Það voru þau Sindri Bernholt og Guðný Salvör Hannesdóttir (Gísella), nemandi í 2F, en hún er frá Arnkötlustöðum í Rangárþingi ytra. Voru þau bæði með aðaleinkunnina 9,8 sem er vegið meðaltal áfanga vetrarins með einum aukastaf.  Semi dux scholae nýliðins vetrar voru einnig tveir, áðurnefnd Margrét María og Kristján Bjarni með aðaleinkunn vetrarins 9,6.

Á útskriftinni var Þórdísi Pálmadóttur þökkuð vel unnin störf, en í hún hefur starfað sem skólaritari og fulltrúi í um áratug og að auki ritað á stúdentaskírteini og í viðurkenningarbækur í 33 ár.

 

Nýjar fréttir