-1.1 C
Selfoss

Sunnlendingar fá Landgræðsluverðlaunin 2021

Vinsælast

Árni Bragason landgræðslustjóri afhenti nýlega Landgræðsluverðlaunin 2021. Þau eru afhent einstaklingum, félagasamtökum og sveitarfélögum sem hafa þótt sýna góðan árangur við landgræðslu og landbætur og voru fyrst afhent 1990. Verðlaunahafar þetta árið eru Skútustaðahrepppur, Bláskógaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni og bændur á Stóru-Mörk III undir Vestur-Eyjafjöllum.

Bláskógaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni – Langimelur


Árni Bragason afhendir Heiðu Gehringer frá Menntaskólanum á Laugarvatni, Guðna Sighvatssyni frá Bláskógaskóla og hópi nemenda Landgræðsluverðlaunin.

Verkefnið við Langamel hófst árið 2016. Umhverfisnefnd ML frétti af verkefni Landverndar um vistheimt með skólum og vildi vera með í því. Nefndin ákvað að taka fyrir uppblásið svæði sem næst skólanum og fékk leyfi til að hefja uppgræðslu á Langamel. Langimelur er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Laugarvatni, við gamla Lyngdalsheiðarveginn og vegarslóði er upp að honum.

Svæðið er að hálfu innan skógræktargirðingar og því ákjósanlegt til að rannsaka áhrif beitar báðu megin girðingar. Nemendur í jarðfræði settu upp tilraunareiti með hjálp Landverndar og nemendur unnu með þá í nokkur ár.

Árið 2018 sást greinilega að svæðinu í kringum reitina hafði hrakað mikið yfir veturinn. Umhverfisnefndin ræddi þá Hrein Óskarsson og Trausta Jóhannson í Skógrækt ríkisins um að hjálpa til við að skipuleggja hertar aðgerðir á öllu svæðinu. Eins var grunnskólanum á Laugarvatni boðið að koma í samstarf um þetta stóra verkefni og hefur Guðni Sighvatsson verið þar fremstur í flokki.

Aðstandur verkefnins fengu styrk frá sveitarfélaginu til að byrja uppgræðsluna. Svæðinu var skipt upp í aðgerðarsvæði og í maí 2019 var hafist handa við að setja niður birki á fyrsta hlutann ásamt því að sá grasfræi og hvítsmára og gefa áburð. Verkefnið fékk styrk frá Landsbankanum til áframhaldandi aðgerða 2020 og 2021.

Hingað til hafa nemendur plantað 1420 birkitrjám, gefið 425 kg af áburði, sáð 50 kg af gras- og smárafræjum og sett 1 gamla heyrúllu í rofabarð.

Áframhaldandi aðgerðir halda áfram í maí 2021 og um ókomna framtíð ef fjármagn fæst til verkefnisins.

Bændur Stóru-Mörk III, sannir landgræðslubændur

Bændur í Stóru-Mörk III undir Vestur-Eyjafjöllum og bændur á Merkurbæjunum voru afar afkastamiklir á árunum eftir Þjóðargjöfina við að græða upp víðfeðm rofabörð á jörðum sínum í samstarfi við Landgræðsluna og Merkurbændur þar jafnan fremstir í flokki. Þeir beittu sér einnig fyrir gerð varnargarða við Markarfljót en það hafði um margra áratuga skeið brotið land jarðanna í Mörk.

Þeir tóku virkan þátt í samningaferlinu um beitarfriðun Almenninga, sem hófst 1985 og lauk 1990 með samningi við Landgræðsluna. Þar með var allt Þórsmerkursvæðið beitarfriðað. Merkurbændur hvöttu einnig sveitarstjórn til að leggja framlag á móti Landgræðslunni vegna uppgræðslu og gróðurbóta á þessum afréttum. Framlagið sýndi vel áhuga heimafólks á vernd og endurheimt landkosta og gerði það m.a. Landgræðslunni kleift að beitarfriða allt Þórsmerkursvæðið með því að girða á landi þeirra úr Jökulsárlóni og í Markarfljót.

Bændur í Stóru-Mörk III voru einnig í framvarðasveit Merkurbænda sem í kjölfar öskufalls úr Eyjafjallajökli árið 2010 hófu uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna á jökuláraurum í Merkurnesi og allt inn að Gígjökli. Uppgræðslan batt gjóskuna og kom þar með í veg fyrir að askan bærist yfir byggðirnar beggja megin við Markarfljótið. Bændurnir á Merkurbæjunum, í samstarfi við Landgræðsluna, girtu varnargirðingu í heimalandi þeirra úr Markarfljóti og upp í fjalllendið til að friða þessar uppgræðslur fyrir beit og gera þær öflugri til að takast á við næsta öskufall og náttúruhamfarir. Nú er víði- og birkigróður að nema þarna land sem gerir viðnámsþrótt landsins enn öflugri.

 

Nýjar fréttir