-5.5 C
Selfoss
Home Fréttir Halldór Kiljan er langbestur

Halldór Kiljan er langbestur

0
Halldór Kiljan er langbestur
Gylfi Þorkelsson

Gylfi Þorkelsson er Laugvetningur búsettur á Selfossi. Hann er íslenskukennari og hefur starfað við Fjölbrautaskóla Suðurlands undanfarna tæpa þrjá áratugi, síðustu ár eingöngu í fangelsunum á Litlahrauni og Sogni, og stýrir skólastarfi þar meðfram kennslu.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er núna með þrjár í takinu. Fyrsta skal telja Drauma og veruleika, sögu Kommúnista- og Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins eftir Kjartan Ólafsson. Ég hef áhuga á stjórnmálum og þetta er lykilrit í íslenskri stjórnmálasögu. Svo gríp ég inn á milli í tvær aðrar, Óhreinu börnin hennar Evu, sögu holdsveiki í Noregi og á Íslandi eftir Erlu Þórdísi Halldórsdóttur og Ekkert að felaÁ slóð Samherja í Afríku, eftir þá Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Drengsson. Afar forvitnilegt efni allt saman.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég les flest sem ég kemst í tæri við, þó hreint ekki allt. Í seinni tíð hafa ævisögur og sagnfræðilegt efni átt vísan stað á náttborðinu mínu. Sérstaklega ævisögur skálda og rithöfunda; Laxness, Stephans G., Einars Ben., Guðmundar Böðvarssonar, Jóhanns Sigurjónssonar, Hannesar Hafstein o.s.frv. Jakobínu var ég að klára um daginn. Þetta finnst mér frábært lesefni. Svo les ég skáldsögur. Og auðvitað ljóðabækur, kaupi og les eins mikið og ég get af því sem út kemur. Íslendingasögurnar les ég reglulega. Dreg eina og eina úr hillu þegar ég er „á milli bóka“. Árbók ferðafélagsins. Lands- og náttúruhættir heilla. Hófapressuna, Stóðhestabókin er fastur liður á vorin o.s.frv En ég les ekki glæpasögur. Ég neyddist til að lesa eitthvað af þeim þegar samkennarar settu það á leslista nemenda, en hef forðast það eftir megni. Það er nóg af slíkum formúlum í sjónvarpinu, ef maður glæpist á að setjast fyrir framan það.

Ertu alinn upp við lestur?

Ég las og las og las og las alla mína æsku og unglingsár. Það finnst mér alla vega þegar ég lít til baka. Það var lesið mikið fyrir mig og okkur systkinin. Mamma sá um það að mestu. Og söng kvæði og sálma fyrir svefninn. Hún hélt mjög að okkur bókum og kveðskap. Og mikilvægi þeirrar skólagöngu og menntunar sem hún sjálf hefði gjarnan viljað geta notið meira af. Ég get til dæmis nefnt Söguna hans Hjalta litla eftir Stefán Jónsson, En hvað það var skrýtið og Vísnabókina. Mjög áhrifamikið efni í minningunni. Sömuleiðis Elsku Míó minn og Leikur að stráum eftir Gunnar Gunnarsson fannst mér skemmtileg. Við fengum bækur í jólagjöf, undantekningarlaust. Hulda Björk, elsta systir mín, sem er einstök á heimsvísu, gaf okkur líka bækur í jólagjöf, alla vega okkur „litlu strákunum“. Þá var lesið mestalla nóttina, allt jólafríið.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég les í skorpum. Í æsku gleypti ég í mig bókaflokka. Hjalta litla sem nefndur var, Árna í Hraunkoti, Múmínálfana. Enid Blyton, allt galleríið. Síðan Alistair MacLean, Desmond Bagley og fleira slíkt. Ég prófaði að kíkja í Blyton síðar, var jafnvel að hugsa um að ýta því að mínum börnum, en hætti snarlega við. Það efni eldist illa. Það sama er enn uppi á teningnum. Skorpulestur. Ég lýk bókum yfirleitt á stuttum tíma ef þær vekja áhuga minn. Nema ef til vill stórvirkjum sem ekki verða tekin með áhlaupi, eins og sú sem ég er að lesa núna. Svo les ég kannski ekkert um mislöng skeið, aðallega vegna tímaskorts.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Halldór Kiljan ber höfuð og herðar yfir aðra rithöfunda. Enginn skáldsagnahöfundur kemst nálægt honum í mínum huga. Hann hafði yfirburðahæfileika við persónusköpun og samfélagslýsingar. Og textinn sjálfur, ritmálið er slíkt gull og gersemi að unun er að láta augun strjúka línunum, velta setningum á tungu, finna tilfinningar, bragð og lykt orðanna. Þar er allt að finna sem máli skiptir í veröldinni; sorg, gleði, bit, samlíðan, geislandi húmor. Marglaga snilld. Nokkrir aðrir höfundar eru vel læsilegir, til dæmis á Jón Kalmann ágæta spretti. Af ljóðskáldum er Hannes Pétursson í sérstöku uppáhaldi. Og Snorri Hjartarson. Og Jónas. Og Jóhann Sigurjónsson. Nei, nú gæti upptalningin orðið of löng.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já. Heimsljós. Hana las ég fyrst unglingur í jólafríi í menntaskóla, kannski 17 ára. Engin bók hefur haft jafn djúpstæð og langvarandi áhrif á mig, fyrr né síðar. Ég las Heimsljós svo árlega í nokkur ár á eftir, alltaf í einni lotu í jólafríinu. Svo hef ég endurnýjaði kynnin af Ljósvíkingnum reglulega í áranna rás og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Las Heimsljós síðast í fyrravetur. Einstakt listaverk.

Hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef gefið út tvær bækur. Það eru ljóðabækur. En ef ég væri skáld og rithöfundur myndi ég skrifa Heimsljós og Sjálfstætt fólk. Og Njálu. Annars þarf í sjálfu sér ekki að skrifa fleiri bækur, fyrst þessar eru til. Þó það sé auðvitað allt í lagi, ef fólk hefur ekkert annað fyrir stafni.

 

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 116. Umsjón Jón Özur Snorrason.