-7.2 C
Selfoss

Er hugmyndin um sveiflukennda íslenska ferðaþjónustu orðin mýta?

Vinsælast

Niðurstöður úr nýrri skýrslu frá Ferðamálastofu, sem unnin var af Jóhanni Viðari Ívarssyni bendir til þess að verulega hafi dregið úr árstíðasveiflu í íslenskri ferðaþjónustu síðasta áratug. Ísland hefur á sama tíma farið frá því að vera það Norðurlandanna sem er með mesta árstíðasveiflu, til þess að vera það næststöðugasta. Þá er árstíðasveiflan hér á líku róli og í mörgum Evrópulöndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Má í raun segja að hugmyndin um hina sveiflukenndu íslensku ferðaþjónustu sé nú orðin mýta, a.m.k. í samanburði við næstu þjóðir. Ágætur árangur hefur náðst í öllum landshlutum við að minnka árstíðasveifluna en hún er minnst á höfuðborgarsvæðinu og mest á Austurlandi.

Næststöðugast Norðurlandanna

Ísland hefur farið úr sveiflukenndustu ferðaþjónustu Norðurlanda fyrir áratug í þá stöðugustu ásamt Finnum og eru þessar þjóðir sér á báti hvað stöðugleika varðar. Norsk ferðaþjónusta er með 40% hærra hlutfall en sú íslenska og dönsk og sænsk 20% hærra.

Á líku róli og mörg Evrópulönd

Sé litið til annarra Evrópulanda gildir hið sama og í samanburði við Norðurlöndin. Ísland sker sig algerlega úr hvað varðar minnkun árstíðasveiflu í ferðaþjónustu síðastliðinn áratug. Sveiflan á Íslandi árið 2019 var 8% minni en nam meðaltali EU28 ríkjanna. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Ísland er í svipuðum flokki og Frakkland og Spánn en stöðugra en t.d. Ítalía og Bretland.

Mesta lækkun sveiflunnar á Suðurlandi

Ágætur árangur hefur náðst í öllum landshlutum við að minnka árstíðasveifluna liðinn áratug. Austurland sker sig úr með nokkra hækkun fyrstu árin eftir 2010 og mestu sveifluna allt tímabilið. Höfuðborgarsvæðið var með minnstu sveiflu allan tímann en mesta lækkunin var á Suðurlandi, 36%.

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir