3.9 C
Selfoss

Ágæt rekstrarniðurstaða hjá Bláskógabyggð

Vinsælast

Ársreikningur Bláskógabyggðar hefur verið afgreiddur af sveitarstjórn. Helgi Kjartansson, oddviti, segir að þrátt fyrir að horfur í rekstri sveitarfélagsins í upphafi COVID faraldursins hafi ekki verið góðar, hafi tekist að skila ársreikningi með afgangi upp á 61,1 milljón króna og afgangur verið bæði af A- og B-hluta sveitarsjóðs. Hann bendir á að útsvarstekjur hafi lækkað á milli ára, enda sé ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu, og atvinnuleysi verið 10 til 14% frá því að faraldurinn hófst. Hlutabótaleiðin og aðrar stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi gert það að verkum að ekki varð enn meiri lækkun á útsvarstekjum en raun varð. Einnig hafi stuðningur ríkisins við sveitarfélög skilað hærri framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en gert hafi verið ráð fyrir, auk þess sem aðhalds hafi verið gætt í rekstri.

Sveitarfélagið réðist í allnokkrar fjárfestingar á síðasta ári og er þar helst að nefna lagningu ljósleiðara, endurbætur á fráveitu, gatnagerð og endurbætur á húsnæði grunnskólanna á Laugarvatni og í Reykholti. „Nú sér fyrir endann á lagningu ljósleiðara í dreifbýli í Bláskógabyggð, sem er mikilvægur áfangi, og tryggir íbúum betri fjarskipti og eykur samkeppnishæfni sveitarfélagsins“ segir Helgi Kjartansson og kveðst bjartsýnn á framtíð sveitarfélagsins, talsverð eftirspurn sé eftir lóðum og sérlega ánægjulegt að uppbygging eigi sér einnig stað hjá fyrirtækjum. Slíkt skapi fleiri störf og geri svæðið eftirsóknarvert.

 

Nýjar fréttir