1.7 C
Selfoss

Hestaíþróttir og skipulagsmál

Vinsælast

Hestaíþróttir eiga sér langa sögu í sveitarfélaginu Árborg en hestamannafélagið Sleipnir var stofnað í júní 1929 og nálgast því óðum 100 ára afmæli félagsins.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því félagið var stofnað hafa sveitarfélög og hreppar sameinast, aðstaða til iðkunar hestaíþrótta hefur tekið miklum breytingum og fjöldi iðkenda hefur margfaldast.
Þess má geta að í dag eru hestaíþróttir önnur mest stundaða íþróttin á svæði HSK á eftir golfi og með fleiri iðkendur en almenningsíþróttir, knattspyrna og fimleikar sem koma næst á eftir. Sleipnir hlaut á dögunum unglingabikar HSK fyrir öflugt æskulýðsstarf. Sleipnir er fyrirmyndarfélag ÍSÍ og státar af afreks íþróttafólki í fremstu röð í heiminum í öllum keppnisgreinum og á öllum aldri, innan félagsins eigum við heimsmeistara, norðurlandameistara,  íslandsmeistara og sigurvegara á landsmóti.  Í landsliðshópi íslands 2021 eigum við fjóra atvinnuknapa og þrjá í landsliðshópi ungmenna en þessi árangur verður að teljast afar góður miðað við stærð félagsins.

Svæði hestamanna á Selfossi hefur í áranna rás verið fært í útjaðar byggðar en ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir elsta hluta svæðisins sem af þeim sökum hefur hvorki aðgang að heitu vatni né frárennsli. Þegar nýjasti hluti hesthúsahverfisins var byggður var sá hluti deiliskipulagður en eldri hlutinn skilinn eftir. Þessi staðreynd hamlar mjög framþróun og uppbyggingu á svæðinu svo ekki verður lengur við unað.
Mikil gróska er í starfi félagsins, sem að mestu er unnið í sjálfboðavinnu og mikill hugur í félagsmönnum að fá aðstöðu bætta til þjálfunar og æfinga. Síðustu ár hefur þrengt mjög að reiðvegum sem eru okkar aðal þjálfunarsvæði. Hér er vísað til aukinnar umferðar vörubifreiða vegna efnisflutninga um Gaulverjabæjarveg og truflun frá iðnaðarsvæði sem liggur að okkar aðal reiðgötu sunnan Larsenstrætis. Nauðsynlegt er að afmarka þessi svæði frá athafnasvæði félagsins með lokuðum girðingum, mön eða sambærilegu, til að minnka slysahættu sem nú er yfirvofandi og truflar mjög æfingar hjá félaginu.

Bæjaryfirvöld hafa tekið vel í að bæta úr stöðunni og hafa nýlega samþykkt að fara í vinnu við rammaskipulag um þarfir félagsins.

Svæði Sleipnis er í útjaðri Selfoss við sveitarfélagamörk Árborgar og Flóahrepps, en Flóahreppur heyrir jafnframt undir félagssvæði Sleipnis.

Í breytingatillögu aðalskipulags, Austurbyggð II, sem nú er til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu Árborg, er fyrirhugað að   minnka til muna landrými ætlað fyrir hestaíþróttir, án þess að landrými til framtíðar uppbyggingar félagsins hafi verið tryggt. Það er afar mikilvægt að sú breytingartillaga sem nú er til umfjöllunar, um að minnka svæði til hestaíþrótta og skipuleggja undir íbúabyggð, verði ekki afgreidd fyrr en fyrir liggur rammaskipulag fyrir hestaíþróttir í sveitarfélaginu og að framtíðarsvæði undir starfsemi félagsins hafi verið tryggt.

Í desember 2020 sendi stjórn Sleipnis umsögn félagsins um fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi til skipulagsdeildar Árborgar. Í framhaldinu voru haldnir fundir um stöðu félagsins í skipulagsmálum og nauðsyn þess að tryggja félaginu nægt landrými fyrir starfsemina, þar á meðal reiðvegi. Á fundum með fulltrúum bæjarstjórnar og verkefnisstjórn kom fram góður vilji til að byggja upp íþróttasvæði og aðstöðu Sleipnis en við höfum tekið skýrt fram að félagið geti ekki samþykkt tillögu að  skipulagsbreytingu sem nú hefur verið auglýst, fyrr en að undangenginni vinnu við áðurnefnt rammaskipulag fyrir svæðið  og að landrými til starfseminnar sé tryggt.

Stjórn Sleipnis hefur leitað til Flóahrepps um að breyta sínu aðalskipulagi í þá veru að tryggja félaginu landrými austan Gaulverjabæjarvegar og hefur sveitarstjórn tekið vel í þá umleitan. Með þessu vildi stjórn Sleipnis opna fyrir möguleika á stækkun til austurs því landsvæðið sem um ræðir í Flóahreppi er að hluta til í eigu sveitarfélagsins Árborgar.
Sleipnir er stærsti hagsmunaaðili ofangreindrar breytingatillögu og ber skipulags yfirvöldum að taka tillit til umsagnar félagsins, sem enn hefur ekki hlotið formlega afgreiðslu.

Á aðalfundi Sleipnis í mars 2021 var sett á laggirnar skipulagsnefnd sem ætlað er að vinna með skipulagsyfirvöldum að ramma-, og deiliskipulagi með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Við óskum eftir því að fulltrúi félagsins úr skipulagsnefnd fái jafnframt sæti í verkefnisstjórn um skipulagsbreytinguna sem nú er í vinnslu.

Við, sleipnisfólk, beinum því til bæjarstjórnar að sýna í verki að þessu aldna, öfluga íþróttafélagi sé ætlað viðeigandi pláss í sveitarfélaginu fyrir sína starfsemi.

Sigríður Magnea Björgvinsdóttir
Formaður Sleipnis

 

 

Nýjar fréttir