-7.6 C
Selfoss

Zelsíuz hreppir Hvatningaverðlaun SAMFÉS

Vinsælast

Félagsmiðstöðin Zelsíuz í Árborg hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun SAMFÉS fyrir verkefnið sitt „Sérstuðningur í Zelsíuz“. Verðlaunin eru veitt þeim verkefnum innan í félagsmiðstöðva sem talin eru vera öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka.  Arnar Helgi Magnússon er umsjónarmaður verkefnisins hjá Árborg og er að vonum stoltur af árangrinum. Við slóum á þráðinn til Arnars og spurðum út í verkefnið.

Um hvað snýst verkefnið? „Það snýst í raun um að efla börn félagslega og styrkja persónulega. Þetta eru sem dæmi börn eða unglingar sem hafa einangrast félagslega af einhverjum ástæðum. Við í sveitarfélaginu Árborg vinnum mikið með svo kallaða snemmtæka íhlutun og verkefnið er liður í því,“ segir Arnar.

Verkefnið vekur athygli annarra sveitarfélaga

Arnar Helgi Magnússon.

Arnar segir það vera mikinn heiður fyrir þá sem koma að verkefninu að einum eða öðrum hætti að fá þessa viðurkenningu frá SAMFÉS. „Svona viðurkenning er til marks um að við séum að gera góða hluti og huga að því sem skiptir máli. Síðustu ár hefur verkefnið vaxið jafn og þétt og vonandi náum við að halda þeirri vegferð áfram. Úrræðið hefur sannað gildi sitt margoft og hjálpað fjölmörgum einstaklingum að rjúfa félagslega einangrun og efla sjálfstraust. Við höfum einnig haft af því spurnir að önnur sveitarfélög sjái tækifæri í svona verkefni,“ segir Arnar. Innan sveitarfélagsins eru fjölmargar stofnanir sem koma að verkefninu, sem er unnið á þverfaglegum grunni. Arnar segir að slíkt samstarf sé lykilatriði í góðum árangri. „Það er farsælt samstarf á milli Félagsmiðstöðvarinnar, barnaverndar, skólanna, skólaþjónustunnar og félagsþjónustunnar almennt. Öll vinnum við saman með það skýra markmið að bæta stöðu barna og unglinga í sveitarfélaginu okkar,“ segir Arnar að lokum.

 

Nýjar fréttir