3.9 C
Selfoss

Skjálftinn haldinn í fyrsta sinn á Suðurlandi

Vinsælast

Skjálftinn er hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum á Suðurlandi, byggð á Skrekk sem hefur verið haldinn í grunnskólum Reykjavíkurborgar í 30 ár. Skjálftinn verður haldinn í fyrsta sinn, á morgun, 15. maí í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn, að þessu sinni fyrir grunnskóla í Árnessýslu en á næsta ári stendur til að bjóða fleiri skólum á Suðurlandi þátttöku. Skjálftinn verður haldinn með öðru sniði en upphaflega stóð til vegna sóttvarnaráðstafanna. Í stað þess að þátttakendur hittist, eigi saman heilan dag og flytji atriði sín fyrir fullan sal af fólki, þá tekur Ungrúv upp atriði frá hverjum skóla og setur saman í viðburð sem verður aðgengilegur á ungruv.is frá kl. 18 sunnudaginn 16. maí. Með þessum hætti var hægt að taka upp hvert atriði án þess að stefna öllum ungmennunum saman með tilheyrandi aukinni hættu á þessum furðutímum heimsfaraldurs. Úrslitin verða tilkynnt “live” á Skjálfta instagramminu sunnudagskvöldið 16. maí kl. 20 þegar formaður dómnefndar, Salka Sól, afhendir farandverðlaunagripinn til fyrsta sigurliðs Skjálftans.

Það eru 8 skólar úr Árnessýslu sem verða með atriði og það eru ungmennin sjálf sem hafa búið þau til frá grunni, útfært, æft, hannað búninga, hárgreiðslur og hvaðeina sem þarf til þess að láta hugmynd að sviðslistaverki verða að veruleika. Markmiðið með Skjálftanum er að bjóða ungmennum upp á verkefni sem eflir sköpunargáfu, þjálfar þau í markvissu langvinnu hópastarfi sem styrkir sjálfsmynd einstaklinga og hefur jákvæð áhrif á skólamenningu. Skjálftinn er samfélagslegt verkefni með sjálfbærni að leiðarljósi, búinn til með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á samfélag og menntun ungmenna. Það er Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem stendur fyrir Skjálftanum og vill hún þakka skólastjórnendum og Skjálftaleiðbeinendum fyrir ánægjulegt samstarf, SASS og Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir stuðninginn og síðast en ekki síst þátttakendum fyrir mikla þrautseigju og jákvæðni á ansi hreint krefjandi tímum. Nánari upplýsingar eru á skjalftinn.is, Facebook og instagram síðu Skjálftans.

Myndir:

(skjalftinn)

Nýjar fréttir