1.1 C
Selfoss

Vilja leggja niður skólahald á Eyrarbakka

Vinsælast

Orðrómur um að vilji sé fyrir því að leggja niður skólahald á Eyrarbakka hefur sveimað um í samfélaginu lengi. Bæjarstjóri Árborgar, Gísli Halldór Halldórsson, staðfestir þetta síðan í viðtalinu „Tækifærin í Árborg felast í friðsæld og mannvænu umhverfi“ sem birtist í Dagskránni 5. maí síðast liðinn.

Sveitarfélagið Árborg rekur skóla í báðum þorpum undir merkjum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri með tilheyrandi skólaakstri. Á Stokkseyri eru nemendur 1.-6. bekkjar og 7.-10. bekkjar á Eyrarbakka. Þetta fyrirkomulag hefur styrkt tengsl á milli fólksins í þorpunum og haldist hefur jafnræði í samfélögunum með sambærilegri þjónustu.

Hjarta þorpsins

Í áðurnefndu viðtali leggur bæjarstjóri til að nemendur á Eyrarbakka verði færðir í skóla á Stokkseyri, m.a. til að spara sveitarfélaginu útgjöld. Það er auðvitað ekkert launungamál eða nýmæli að skólastarf í fámennri byggð sé kostnaðarsamt. Bæjarstjóri segir að flutningur nemenda muni styrkja skólastarfið og byggir það á fjölmörgum samtölum við starfsfólk skólans og skólaþjónustu.  Ég vil mótmæla þessari tillögu hans, sem væntanlega fleiri standa á bak við, þar sem hann hlýtur að teljast talsmaður bæjarstjórnar.

Bæjarstjóri vill fá samfélagsmiðstöð í skólahúsið á Eyrarbakka sem hann telur að yrði „hjarta í þorpinu, púlsinn og lífæðin“. Kæri bæjarstjóri! Skólastarfið er einmitt það, hjartað í samfélaginu. Öll samfélög berjast fyrir því að halda skólahaldi í sinni byggð og gefast ekki upp fyrr en fólksfæðin neyðir sveitafélög í slíka sársaukafulla aðgerð. Ég veit ekki neitt dæmi þess að skólahald sé lagt niður í vel dafnandi byggð. Á Eyrabakka er blómlegt félagstarf og menningarlíf en hvorki mikill atvinna né þjónusta og skólinn er einn af þremur fjölmennustu vinnustöðum í þorpinu. Hér er gagnlegt að nefna að Eyrarbakki og Stokkseyri eru ekki eitt og sama þorpið né eru þau úthverfi í Árborg.

Velferð barnanna

Það heyrist gjarnan á tali þeirra sem styðja leynt eða ljóst tillögur bæjarstjóra að huga beri fyrst og fremst að velferð og vellíðan barnanna og framtíð þeirra, líkt og þeir sem tala fyrir skólahaldi á Eyrabakka geri það af eigingjörnum hvötum án tillits til velferð barnanna. Börnin eru hluti af fjölskyldu og hluti af samfélaginu. Skólaleysi í þorpi mun hafa varnaleg áhrif á samfélagið með ólíkum hætti og varðar þannig okkur öll.

Sömuleiðis heyrast þau rök fyrir flutningi nemenda að veita þurfi þeim sem besta aðstöðu til náms. Þá spyr ég, hver vegna er þá ekki keppst við að veita nemendum sem sækja skóla á Eyrarbakka góða aðstöðu þar?  Á Eyrabakka er ekki aðstaða til að kenna myndmennt, heimilisfræði, smíði, hannyrðir og sund og keyrt með krakkana yfir á Stokkseyri í öll þessi fög með tilheyrandi kostnaði. Nemendur á Eyrarbakka hafa að hluta til verið í útistofum í fjóra áratugi nokkuð athugasemdalaust. Hver vegna er bæjarstjóri ekki að hrósa skólanum fyrir þolgæði og hagsýni og stinga upp á úrbótum á skólahúsinu og aðstöðu fyrir t.d. verkgreinar á Eyrarbakka?

Ný skólahús í báðum þorpum

Ég held að menn sé búnir að gleyma áætlunum frá upphafi aldarinnar um uppbyggingu Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þá var tekin sú ákvörðun, eftir íbúakosningu, að byggð yrðu ný skólahús í báðum þorpum. Byrjað var á Stokkseyri og þegar kreppan skall á árið 2008 (það eru 13 ár síðan) var uppbyggingu á Eyrarbakka slegið á frest. Nemendur á Eyrabakka eru enn að bíða eftir bættri aðstöðu en nú er lagt til að refsa samfélaginu fyrir þolinmæðina með að leggja niður skólahald!

 

Byggð í vexti

Skólahald sem er hluti af grunnþjónustu sveitarfélags á að teljast sjálfgefið í blómlegri byggð. Byggðin hér er í vext og gæti vaxið enn meira til dæmis ef sveitarfélagið stæði sig í að skipuleggja nýtt íbúðahverfi og  auglýsti þær lóðir í blöðum á frambærilegan hátt. Það virkar eitthvað mótsagnakennt að bæjarstjóri segi í viðtali að varast skuli of hraðan vöxt þorpanna tveggja en segir í sama viðtali, að eftir „ekki mörg ár“ verði fjölgun slík að nýr fullbúinn skóli þurfi að rísa á Eyrarbakka. Þarna gerir hann sem sagt ráð fyrir mikilli fjölgun fjölskyldufólks í skólalausu þorpi. Er það raunhæft? Er virkilega einhver sem heldur að skerðing á þjónustu hafi ekki áhrif á byggðaþróun?

Íbúafundur?

Skoðanir fólks á þessu eru ólíkar og það bera að virða. Það er hins vegar óþolandi og virkilega niðurdrepandi að umræðan fylgji samfélaginu eins og draugur ár eftir ár. Staðan var svipuð fyrir 10 árum. Tillögur um skerðingu á skólahaldi eru sprottnar frá bæjarstjórn og koma ekki frá íbúum svo umræðan er á ábyrgð fulltrúa hennar. Eða hvað finnst foreldrum á Eyrabakka?  Ég legg til að boðað verði til íbúafundar þar sem bæjarfulltrúar sem og stjórnendur skólans kynna íbúum, börnum, foreldrum, tilvonandi foreldrum, öfum og ömmum  afstöðu sína og stofnað verði til samtals.

Að lokum

Ég hef búið á Eyrarbakka í 26 ár og sæki núna vinnu til höfuðborgarinnar en vann á Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrabakka meðan börnin mín voru á grunnskólaaldri. Ég vonast til að búa hér til gamals aldurs. Á næsta ári verður skólahald á Eyrarbakka 170 ára og ég vona að við fögnum því með stolti og sóma með öflugu skólastarfi í elsta barnaskóla landsins.

Linda Ásdísardóttir, íbúi á Eyrarbakka.

 

Nýjar fréttir