-8.2 C
Selfoss

Kjötvinnsla Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvelli í 30 ár

Vinsælast

Þann 1. maí árið 1991 var brotið blað í sögu Hvolsvallar en þá opnaði Sláturfélag Suðurlands (SS) glæsilega kjötvinnslu á Hvolsvelli og flutti þannig alfarið vinnslu sína frá Reykjavík. SS fagnar því 30 ára framleiðsluafmæli sínu á Hvolsvelli í dag.

SS átti húsnæði á Hvolsvelli, bæði frystihús sem félagið hafði byggt með Kaupfélagi Rangæinga (KR) sem og nýtt sláturhús sem starfaði einungis nokkrar vikur á hausti í sláturtíð ár hvert auk stórgripaslátrunar örfáa daga í mánuði hverjum. Fyrir var lítilsháttar starfsemi allan ársins hring í frystihúsi, sögun og pökkun frystivöru. Á þessum tíma hafði SS keypt hlut KR í frystihúsinu undir starfsemi sína.

Um þessar mundir hafði kviknað sú hugmynd að auka starfsemi SS á Hvolsvelli og nýta þannig húsnæðið betur. SS var þá á þeim tímamótum að þurfa að endurnýja húsnæði sitt í Reykjavík og hafði þegar hafið byggingu húsnæðis í Laugardaglnum. Forsenda flutninganna var að ríkið kæmi að málum og keypti upp eignir félagsins í Reykjavík. Á þessum tíma var Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Hvolhrepps og Steinþór Skúlason forstjóri SS, en samvinna þeirra var mikil og góð með það að markmiði að hugmyndin yrði að veruleika. Flutningarnir skiptu báða aðila miklu máli, enda SS í eigu bænda á Suðurlandi og með þessari framkvæmd væri verið að flytja starsemina nær uppruna sínum.

Atvinnustarfsemi af þessari stærðargráðu hafði ekki verið áður á Hvolsvelli. Á þessum árum var skortur á atvinnu á svæðinu og kjötvinnslan yrði því mikil lyftistöng fyrir samfélagið enda stærsti vinnustaður sveitarfélagsins þá og enn þann dag í dag. Þennan dag fyrir 30 árum fluttu 100 ársverk á Hvolvöll og munaði um minna á þeim tíma fyrir sveitarfélag af þeirri stærðargráðu sem það var þá.

Kjötvinnsla SS á Hvolsvelli dafnaði vel og fljótlega fór að þrengja að starfseminni enda umsvifin aukist mikið. Árið 1998 var því ráðist í viðbyggingu við húsnæðið. Á Hvolsvelli er nú stærsta kjötvinnsla landsins og er stærð fasteigna SS á Hvolsvelli um 10.000 m2. Nú 30 árum síðar hefur söludeild félagsins einnig flutt á Hvolsvöll sem og stór hluti skrifstofustarfseminnar. Nýjasta viðbótin er svo búvöruverslun þar sem einnig er hægt að kaupa þeirra góðu sælkeravörur og nýta bæði heimamenn og ferðamenn sér það óspart að sækja sér eitthvað gott á matarborðið hvenær sem færi gefst.

Síðastliðin 30 ár hefur gróskan verið mikil á Hvolsvelli og hefur íbúum fjölgað um rúmlega 60%. Þjónusta og atvinnulíf hefur byggst upp og er fjölbreytt og spennandi og vafalaust á flutningur SS sinn þátt í þeirri þróun. Árið 2002 sameinuðust svo sex sveitarfélög í austanverðri Rangárvallasýslu og úr varð sveitarfélagið Rangárþing eystra og er Hvolsvöllur þéttbýliskjarni sveitarfélagsins. Þrátt fyrir sameiningu er SS enn stærsti vinnustaður sveitarfélagisns og hafa margir íbúar starfað þar í lengri eða styttri tíma. Fjöldi erlendra starfsmanna hefur komið og starfað hjá SS og á Hvolsvelli byggst upp fjölmenningarsamfélag, enda fjöldi erlendra íbúa sest hér að, stofnað fjölskyldu og haft jákvæð áhrif á samfélagið í heild.

Það má með sanni segja að Sláturfélag Suðurlands sé burðarstólpi í atvinnu- og mannlífi Rangárþings eystra, því auk þess að vera stór atvinnurekandi hefur fyrirtækið stutt ötullega við bakið á íþrótta- og menningarstarfi í sveitarfélaginu. Stuðningurinn hefur bæði verið í formi fjármagns sem og framleiðsluvara. Það er orðin hefð fyrir því að grilla SS pylsur á vorhátíðum leik- og grunnskóla og knattspyrnuleikir eru hér spilaðir á SS-vellinum. Á Kjötsúpuhátíðinni, bæjarhátíð sveitarfélagsins, er það einnig orðin hefð að starfsmenn SS komi og deili út fjölmörgum skömmtum af gómsætri kjötsúpu og er það einn af hápunktum hátíðarinnar.

Það er augljóst að sambúð SS og Rangárþings eystra hafi dafnað vel. Gríðarlegur vöxtur hefur verið bæði á starfsemi SS sem og mannlífi í Rangárþingi eystra, en þar er nú eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og byggingalóðum sem aldrei fyrr og uppbygging aldrei verið meiri. Framtíðin er björt í Rangárþingi eystra sem er heilsueflandi samfélag í stöðugri sókn.

Til hamingju með 30 ára samvistarafmæli SS og Rangárþing eystra!

Lilja Einarsdóttir

Sveitarstjóri Rangárþings eystra

Nýjar fréttir