-8.2 C
Selfoss

Ég fer aldrei bókarlaus í ferðalög

Vinsælast

Jóhann Óli Hilmarsson býr á Stokkseyri og starfar sjálfstætt við náttúrufræðiiðkun, náttúruljósmyndun og ritstörf. Hann er úr Flóanum í báðar ættir og flutti „heim“ í Flóa fyrir tuttugu árum síðan. Hann hefur skrifað og myndskreytt nokkrar bækur um fugla og íslenska náttúru, þar á meðal Íslenskan fuglavísi. Sú bók hefur selst í um 50.000 eintökum á þremur tungumálum og geta fáir sunnlenskir höfundar státað af slíkum sölutölum nema kannski höfundur Njálu, ef hann var Sunnlendingur.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er oft með nokkrar í takinu í einu. Hér á Stokkseyri er bókasafn sem ég nota mikið. Náði síðast í Eyland eftir Sigríði Hagalín og 1. bindi Þjóðsagna Jóns Múla. Sagt er að Sigríður sé spámannlega vaxin, segi fyrir um óorðna hluti og langaði mig að kynnast verkum hennar. Og ég var ekki svikinn. Jón Múli var mikill sagnameistari og jazzfræðingur. Þættir hans í útvarpinu gerðu sitt til að vekja áhuga minn á jazzi þegar ég var unglingur. Hann hefði orðið 100 ára í lok mars og kominn tími til að glugga í þjóðsögurnar. Svo greip ég Fjallamenn eftir Guðmund frá Miðdal ofanúr hillu um daginn en hann var frumkvöðull í fjallamennsku og segir frá af miklu listfengi, enda mikill listamaður þar á ferð. Loks vil ég nefna í Kompaníi við allífið, samtalsbók Þórbergs og Matthíasar sem ég hef verið að lesa í stuttum áföngum. Skyldulestur fyrir alla Þórbergsunnendur.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Því er ekki auðsvarað. Ég les náttúrulega mikið af fræðiritum enda fylgir það starfinu. Svo bara skáldsögur af ýmsum stærðum og gerðum. Frá norrænum reyfurum og upp í Dostójevskí og HKL. Ég ólst upp við Sjöwall og Wahlöö og kann bækur þeirra flestar utan að. Ég hef sjaldan verið jafn kátur og þegar ég fann tíundu og óþýddu bókina í seríunni um Martin Beck og co, Terroristerne, á fornsölu í Køben. Ég reyni alltaf að taka eina til tvær fornsögur á hverju ári. Ég er tónlistarunnandi og sérstaklega áhugasamur um jazz og les töluvert um hann. Hef til dæmis lesið að minnsta kosti þrjár ævisögur Miles Davis um dagana. Nýjasta áhugamálið er myndlist og hef ég aðeins verið að kíkja í listaverkabækur og ævisögur nokkurra myndlistarmanna. Svo má ekki gleyma ferðabókunum. Ég ferðast talsvert, bæði innan lands og utan, jafnt vegna vinnu og svo af hreinni ánægju og finnst mér gaman að kynna mér staðina sem ég heimsæki. Ég á allar Árbækur Ferðafélagsins í frumútgáfu og hef komið að gerð nokkurra.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Já, já, ég er alinn upp við lestur. Amma sá mikið um mig fyrstu tíu árin og hún var dugleg að lesa fyrir mig. Ég ólst upp í Bústaðahverfinu og sótti ungur á Borgarbókasafnið í Hólmgarði. Svo byrjaði ég snemma að safna bókum, en það er efni í annað viðtal. Ég las íslenska höfunda eins og Ármann Kr. Einarsson, Guðjón Sveinsson og Nonna, skandinavíska eins og Anne-Cath Vestly og Astrid Lindgren. Tarzan og Tom Swift koma upp í hugann og svo að sjálfsöguðu Enid Blyton.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég er það háður bókum, að ég fæ alvarleg fráhvörf, ef það er ekki bók í seilingarfjarlægð. Ég fer aldrei bókarlaus í ferðalag. Einu sinni skrapp ég sem oftar til Búlgaríu og gleymdi að taka með mér bók. Uppgötvaði það þegar ég kom út. Ég hafði keypt norskt ljósmyndatímarit á Gardermoen á leiðinni og las hvern staf í því, ekki mikið úrval af bókum á skiljanlegum málum í Búlgaríu. Þetta gerist aldrei aftur. Ég les þegar tími gefst til og oft á kvöldin, þá frekar í „menningarstofunni“ en í rúminu. Blindur er bóklaus maður.

Einhverjir höfundar sem höfða frekar til þín en aðrir?

Fjölmarga, ég las til dæmis Þórberg upp til agna þegar ég var ungur. Hann hafði mikil áhrif á mig og á ég erfitt með að gera uppá milli bóka hans. Ég hef verið að lesa Sálminn um blómið fyrir dóttursoninn undanfarið. Ég á það til að leggjast í höfunda, tók til dæmis Laxness í einum rykk, en það tók á annað ár, ég er svo hæglæs, með athyglisbrest og þarf stundum að lesa sömu síðuna margoft. Meðal annars þess vegna hef ég ekki enn komið á tengslum við hljóðbækur. Jón Kalman tók ég líka föstum tökum. Ég laðast að mörgum íslenskum samtímahöfundunum: Auði Övu, Guðrúnu Evu, Óla Gunn, Pétri Gunn, Gyrði, Andra Snæ, Einarunum Má og Kárasyni, Þórarni, allt fínir höfundar sem ég les. Síðast en ekki síst vil ég nefna Megas en ég á næstum allt sem hefur komið út eftir hann á prenti. Ætli við getum svo ekki skellt Snorra Sturlusyni hérna í lokin sem fulltrúa fornsagnahöfunda?

Danska er mitt annað mál og les ég tölvuert á því máli, auk ensku, norsku og sænsku. Las einu sinni danska höfundinn Leif Panduro upp til agna. Hann hlaut aldrei miklar vinsældir hér á landi og aðeins ein bók þýdd eftir hann á íslensku. Það er ekki gott að henda reiður á af hverju maður heldur meira uppá einn höfund fremur en annan. Þeir hljóta að höfða til manns og maður hefur ánægju af lestri þeirra. Ég hika síðan ekki við að leggja frá mér bók snemma, ef hún höfðar ekki til mín.

En að lokum Jóhann, hvernig myndir þú lýsa þér sem rithöfundi?

Ég held ég haldi mig bara við þá gerð bóka sem mér farnast best að skrifa. Einu sinni dreymdi mig um að skrifa reyfara, en það var áður en hálf þjóðin lagðist í þá iðju.

 

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 114. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

 

Nýjar fréttir