-0.5 C
Selfoss

Af rafskútuvæðingunni

Vinsælast

Heilmikið hefur fjölgað í hópi rafhlaupahjóla eða rafskúta, rafmagnsvespna og ýmissa annarra rafknúinna farartækja í umferðinni. Hér ætlum við þó að einskorða okkur við rafskúturnar í bili. Þróunin þarf auðvitað ekki að vera slæm eða tilefni til þess að agnúast út í sérstaklega. Þó fylgja öllum breytingum ákveðnir vaxtaverkir sem þarf að taka tillit til og reyna að vinna með svo að ekki hljótist slys af. Margir hafa á það bent að þessum tækjum sé ekið hratt miðað við aðstæður og jafnvel af svo litlum börnum að þau standa varla út úr hnefa og ná ekki upp fyrir stýrið á skútunni. Nú er það svo að í lögunum er ekkert sem takmarkar notkun ungra barna á rafskútunum utan atriða eins og hjálmaskyldu og bann við farþegum. Tilmæli Samgöngustofu mælast þó til þess að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda um aldurstakmark. Þá er engin vátryggingaskylda á hjólunum, en eigendur hvattir til að leita ráða hjá tryggingafélögum.

Ábyrgð foreldranna víðtæk

Öryggisumfjöllun og varnaðarorð byrja heimavið og það þarf í sífellu að minna börnin á góða umferðarhegðun. Við leituðum á náðir Guðna Sveins Theodórssonar sem bæði hefur farsæla reynslu af ökukennslu á bíla og hjól um hvernig best væri að haga fræðslunni. „Það er skynsamlegt að gefa börnunum tækifæri á að æfa sig á búnaðinn áður en þau fara í umferðina, rétt eins og um önnur ökutæki væri að ræða. Þá hvílir skylda á okkur sem eldri erum að segja þeim yngri til og leggja þeim heilt til, jafnvel að meta það sem svo að bíða dálítið lengur með að kaupa rafhjól. Ég er ekki viss um að fólk geri sér vel grein fyrir því að hraði, um 25 km á klst. er bara þó nokkuð þegar til skjalanna kemur. Við getum hugsað okkur barnavagn, gæludýr eða smábarn sem yrði fyrir þessu. Það sama gildir auðvitað um reiðhjólin sem auðvelt er að ná á mikinn hraða, enda flest komin með marga gíra. Ég held að farsælasta lausnin á þessu væri einfaldlega góð æfing á búnaðinn undir eftirliti forráðamanna, fræðsla um það sem sérstaklega þarf að varast og svo æfa neyðarvarnir. Það ætti að kenna börnunum að bregðast við þegar og ef þess þyrfti þannig að handtökin gætu verið nokkuð fumlaus,“ segir Guðni Sveinn í samtali við Dagskrána.

Tilbúin í vorið

Undir þetta tekur fulltrúi Lögreglunnar á Suðurlandi. „Það er ekki spurning um að drífa í þessu. Æfa sig, fara yfir allan búnað og gera klárt í hjólasumarið fram undan. Þetta er ekki frábrugðið því sem mótorhjólamenn gera fyrst á vorin. Menn eru ryðgaðir eftir veturinn og það er gott og nauðsynlegt að æfa viðbrögð við hættu svo það sé alveg klárt hvernig bregðast skal við. Alltént er mikilvægt að fara yfir búnað og ekki fjarri lagi að æfa!“

Nýjar fréttir