-6.7 C
Selfoss

Eins og járn sækir að segli sankast að mér bækur

Vinsælast

Sigurður Bogi Sævarsson er fæddur árið 1971. Hann er frá Selfossi og tengist staðnum enn sterkum böndum þótt hann hafi lengi búið í Reykjavík. Sigurður starfar sem blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess að hafa skrifað bækur, tekið ljósmyndir og fleira slíkt.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Sagnfræði, ferðasögur, þjóðlegan fróðleik, fréttatengd rit og ævisögur. Hér í kamesi mínu eru margar hillur með slíkum bókum, óteljandi hillufaðmar. Eins og járn sækir að segli sankast að mér bækur, margar um efni sem gefa mér tækifæri til að öðlast meiri og betri skilning á samtíma og sögu og setur fólk, fréttir og fyrirbæri í samhengi við annað áhugavert. Nefni hér þrennt nýlega lesið: Konan sem elskaði fossinn ævisaga Sigríðar í Brattholti eftir Eyrúnu Ingadóttir sagnfræðing er fullþroskað bókmenntaverk. Eins og í öllum góðum sögum er hetja í aðalhlutverki sem stendur í stríði við skilningslausa heimaalninga og vonda karla en fær aftur atfylgi frá góðu og fróðu fólki sem aftur tryggir sanngjarnan sigur í sögulok. Jafnframt segir í bókinni vel frá einsleitu og um margt þröngsýnu sveitasamfélagi á fyrri hluta 20. aldarinnar og lýsir veröld sem var. Bókin World Heritage Sites sem er gefin út í Bandaríkjunum og keypt á Amazon er frásögn um 1.031 staði á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ritið er alls um 900 blaðsíður og skemmtilegur leiðangur um áhugaverða staði í veröldinni. Hef heimsótt nokkra þá staði sem segir frá í bókinni og langar að bæta fleirum við þegar ferðafrelsi fæst. Árbækur Ferðafélags Íslands: umgangurinn sem er um 90 bækur. Nýjasta bókin er um Rauðasand, Látrabjarg og nærliggjandi slóðir: greinar um náttúru, mannlíf og sögu. Stórskemmtilegt aflestrar.

Varstu alinn upp við bóklestur?

Staðir og ævintýri barnsáranna fylgja okkur alla ævi. Sennilega er hugurinn aldrei opnari fyrir sögum, fróðleik og hugmyndum en á grunnskólaldri. Margt sem ég las og kynntist á þeim aldri er enn í dag heiðskírt í minni og mótaði viðhorf mín til langs tíma. Sérstaklega nefni ég þar bækur Guðrúnar Helgadóttur og hjónanna Jennu Jensdóttur og Hreiðars Stefánssonar. Bækur þessa góða fólks eru fyndnar og fræðandi. Mannlegt samfélag og vitnisburður um að fólk er allskonar. Enn í dag finn ég hvernig punktar úr þessum bókum lita og jafnvel ráða afstöðu minni til ýmissa þátta. Góðir rithöfundar geta haft mikil áhrif á samfélag sitt. Ein af uppáhaldsbókum mínum síðan á barnsaldri er Örkin hans Nóa, saga úr gamla testamentinu sem rímar að nokkru við kórónuveiruna og minnir um margt á syndaflóð.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Eðlislæg lífsforvitni mín ræður að mér er tamt að skotra í laumi augum mínum á bókaskápa, þar sem ég kem. Hvað finna má í hillum segir jafnan talsvert um lífsviðhorf og áhugamál húsráðanda. Spjall kemst á flug ef maður veit örlítið um viðmælandann og þá geta bækur verið ágætt upplegg í samtali. Annars eru mínar venjur við lestur helstar að í sagnfræðiritum, ferðabókum og ævusögum gríp ég niður í einstaka kafla eða síður – vel það sem fangar athygli mína helst. Uppflettingar samkvæmt áhuga stundarinnar. Fagurbókmenntir, sem höfða síður til mín, les ég milli spjalda og í línulegri dagskrá – en þó stundum tilviljankennd brot úr sögunum.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Einar Már Guðmundsson og bækur hans hafa alltaf höfðað sterkt til mín. Frásagnagleðin, húmorinn og viðurkenning höfundarins á því að lífið má og á að vera fjölbreytt. Orðaleikir Þórarins Eldjárns eru yndislegir og ákafinn, áhuginn og viljinn til að hafa áhrif á samfélagið og þróun þess skín sömuleiðis í gegnum bækur Andra Snæs Magnasonar en alla þessa höfunda þekki ég bæði af bókum þeirra og góðum persónulegum samskiptum við þá.

Að lokum Sigurður hvernig myndir þú lýsa þér sem rithöfundi?

Ég hef sjálfur skrifað nokkrar bækur meðal annars um sögulega viðburði og fréttatengd mál.  Margt efni í þeim anda er tiltækt á harða disknum og bíður útgáfu í óljósri framtíð. Annars finnst mér minnstu skipta hvert form útgáfu er. Leiðir til þess að koma sögum sínum, viðhorfum, myndum og fleiru slíku á framfæri eru orðnar óteljandi. Bækur, blöð, ljósvaki og vefmiðlar. Hvert sem formið eða miðillin þá er aðalatriðið að hafa eitthvað fram að færa og liggja mikið á hjarta. Vera með boðskap sem nær í gegn. Annars er betur heima setið en af stað farið.

________________________________________________

 

Lestrarhesturinn er samstarfsverkefni Bókabæjanna austanfjalls og Dagskrárinnar. Markmiðið er að búa til áhugavert lesefni fyrir almenning og vettvang um bóklestur og bókmenningu. Ritstjóri er Jón Özur Snorrason og þætti honum vænt um að fá tölvupóst frá þeim sem hafa áhuga á að vera lestrarhestar í gegnum netfangið jonozur@gmail.com

 

 

 

Nýjar fréttir