Skjólstæðingar heilsugæslustöðva á Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og Laugarási sem eru 70 ára eða eldri, var boðið að koma í bólusetningu sem fram fór í Vallaskóla á Selfossi laugardaginn 10. apríl sl. Í samtali blaðamanns við fólkið kom fram að það væri langþráð að fara að sjá fyrir endann á veirunni og komast aftur í hefðbundið líf án takmarkana sem hafa litað sl. rúmt ár. Um bóluefnið sagði einn að fyrst Kári Stef léti sig hafa það að fara myndi hann ekki skorast undan.