-6.6 C
Selfoss

Hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni lokað

Vinsælast

Sælureitur með sögu og menningu fer forgörðum

Fyrir réttum 50 árum  var fyrsta hjólhýsið skráð hér á landi og fljótlega upp úr því koma fyrstu hjólhýsin á Laugarvatn. Íslensku malarvegirnir fóru illa með hjólhýsin og því fóru menn að leggja þeim og nota sem sumarhús. Hjólhýsahverfið á Laugarvatni liggur við rætur Laugarvatnsfjalls og er að öllum líkindum elsta hjólhýsahverfið á Íslandi og það vinsælasta.

Hverfið hefur vaxið og þróast sem sjálfstætt samfélag síðustu áratugi og er þess vegna áhugavert út frá sjónarhorni þjóðfræðinnar. Umhverfið á Laugarvatni var í fyrstu aðeins mólendi. Frumbyggjar svæðisins unnu við uppbyggingu þess og lögðu grunninn að hverfinu eins og það er í dag. Með tímanum var síðan bæði rafmagn og vatn lagt í hvert hús. Vegna mikillar eftirspurnar eftir lóðum, upp úr aldamótum 2000, úthlutaði sveitarfélagið stærra landsvæði undir hverfið og leyfði þar með áframhaldandi uppbyggingu þess. Hjólhýsahverfið hefur því stækkað jafnt og þétt með árunum úr því að vera mólendi með örfáum hjólhýsum yfir í að vera þéttbyggt og skógi vaxið rjóður.

Hjólhýsahverfi með sögu- og menningarlegt gildi

Áhugavert er að heimsækja hjólhýsahverfið á Laugarvatni. Þar hafa margar fjölskyldur komið sér upp sínum sælureitum. Algengt er að hver og einn skreyti sitt hjólhýsi og nærumhverfi á persónulegan máta. Hjólhýsin í hverfinu eru af öllum stærðum og gerðum, gömul og ný. Í hverfum sem þessum er meiri nánd og í húsunum sjálfum minnir það á baðstofu fyrri alda. Hópurinn sem samankominn er í hverfinu er fjölbreyttur, kemur víða að, úr öllum starfsstéttum og á öllum aldri. Mikið er af skyldmennum og tengsl við nágranna eru töluverð. Margir hafa myndað tilfinningaleg tengsl við svæðið og algengt er að vinskapur myndist milli íbúa. Félagslegi þátturinn er því ríkulegur. Sérstakur og góður andi ríkir. Allt gefur þetta hverfinu sögu- og menningarlegt gildi og í því felast verðmæti. Hjólhýsin eru um 200 talsins og nýta eigendur þeirra og fjölskyldur sér verslun og þjónustu á Laugarvatni, sem er töluverð lyftistöng fyrir svæðið.

Lokun svæðisins reiðarslag fyrir hjólhýsaeigendur

Bláskógabyggð samþykkti í september á síðasta ári að loka hjólhýsasvæðinu. Kom það sem reiðarslag fyrir hjólhýsaeigendur og vakti málið athygli í fjölmiðlum. Gildandi leigusamningar verða ekki endurnýjaðir þegar þeir renna út á næstu tveimur árum. Ástæðan er sú að brunavörnum er áfátt. Ráðast þurfi í framkvæmdir til að koma öryggismálum á svæðinu í viðunandi horf. Leggja vatnslögn inn á svæðið fyrir slökkvilið, setja upp brunahana, gera flóttaleiðir, deiliskipulag ofl. Komið hefur fram að sveitarfélagið er ekki reiðubúið að leggja í þann kostnað sem þessu fylgir. Regluverk hefur breyst á þeim tíma sem liðinn er frá því að uppbygging hófst og nú eru gerðar meiri kröfur í þeim efnum. Rétt er að geta þess að enginn opinber aðili hefur farið fram á lokun svæðisins, heldur er lögð áhersla á að úrbóta sé þörf.  Eflaust þarf úrbætur á fleiri hjólhýsasvæðum á landinu. Ef viðbrögðin verða þau sömu og hjá Bláskógabyggð er ljóst að hjólhýsasvæðin á Íslandi munu renna sitt skeið á enda.

Félag hjólhýsaeigenda býður fram aðstoð við úrbætur

Í október á síðasta ári gerði Samhjól, félag hjólhýsaeigenda á Laugarvatni Bláskógabyggð tilboð um að félagið legði til allt að 20 milljónir króna til framkvæmda við öryggismál á svæðinu í því augnamiði að það verði áfram starfrækt. Auk þess er félagið tilbúið að leggja fram vinnuframlag. Hér er um gott tilboð að ræða sem Bláskógabyggð hefur enn ekki svarað, sex mánuðum eftir að það var lagt fram.

Ég vil hvetja Bláskógabyggð til þess að ganga til samninga við Samhjól og leita allra leiða til þess að hjólhýsasvæðið á Laugavatni fái að lifa áfram. Svæðið er sælureitur margra fjölskyldna til fjölda ára og hefur sögu- og menningarlega skírskotun.

Birgir Þórarinsson

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

birgirth@althingi.is

Nýjar fréttir