7.3 C
Selfoss

Sjálfseignarstofnun um Njálurefilinn sett á laggirnar

Vinsælast

Þriðjudaginn 30. mars sl. var skrif­að undir sam­þykktir fyrir sjálfs­eignar­stofnun­ina Njálu­refill ses. og hún þar með stofn­uð. Í stjórninni eru þau Gunn­hildur E. Krist­jáns­dóttir, for­maður, f.h. Njálu­refilsins, Lilja Einars­dóttir, gjaldkeri og ritari, f.h. Rangár­þings eystra, Anton Kári Halldórsson, f.h. Rangár­þings eystra og Þuríður Vala Ólafsdóttir, f.h. Hollvina­félags Njálu­refilsins.
Tilgangurinn með að setja sjálfseignarstofnunina á laggir­nar er að varðveita, við­halda og standa fyrir sýningu á Njálureflinum sem sýnir Brennu-Njálssögu handsaumaða með refilsaumi í 90 m langan hör­dúk. Með varðveislu og sýningu Njálurefils er það markmið stofn­unarinnar að standa vörð um menningarlegt og sögulegt gildi Brennu-Njálssögu, efla og varðveita hið forna listform refil­saum og standa fyrir kynningu og miðlun þekkingar á Brennu-Njálssögu og refilsaumi.
Það var mikil gleði að loksins sé búið að stofna félagið og á fyrsta stjórnarfundinum var skálað fyrir góðri framtíð Njálurefilsins.

Nýjar fréttir