7.8 C
Selfoss

Kjósum 16 ára

Vinsælast

Við viljum að kosningaaldur sé lækkaður úr 18 í 16 ára aldur í öllum kosningum. Þetta mál hefur áður komið upp í þjóðfélaginu en nú er komið að því að þetta fari í gegn. Hér að neðan er fræðsla um lækkun kosningaaldurs.

Ungt fólk til valda

Við viljum  til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Með því að lækka kosningaaldur í 16 ár nær kosningarrétturinn til tveggja árganga fólks sem enn nýtur verndar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það að þau megi kjósa er í anda barnasáttmálans sem tryggir börnum rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum er þau varða.

Þátttaka ungs fólks

Kosningaþátttaka hjá fólki undir 40 ára er miklu lægri en hjá eldra fólki. Þjóðin er að eldast og því skiptir máli að sem flestir kjósendur láti sig málefni ungs fólks varða og þar með málefni framtíðarinnar. Ótal samfélagshreyfingar undanfarin ár sýna það að ungt fólk vill breyta samfélaginu. Sem dæmi má nefna #FreeTheNipple, #ÉgErEkkiTabú og Loftslagsverkföllin. Stjórnmálin þurfa að vera vettvangur fyrir þetta unga fólk.

Skattur tekinn af 16 ára fólki

Ríkið og sveitarfélög taka skatt af fólki frá 16 ára aldri án þess að þau hafi aðkomu að því að velja þá fulltrúa sem hafa með höndum ráðstöfun þess skattfjár. Þetta er með öllu óboðlegt í nútímasamfélagi. Nú er enginn af 63 Alþingismönnum undir 30 ára aldri.

Fyrri reynsla

Góð reynsla hefur verið af lækkun kosningaaldurs í öðrum löndum. Í Austurríki stórjók lækkun kosningaaldurs stjórnmálaáhuga ungs fólks. Einnig er það sannað að kjósendur sem kjósa í fyrsta sinn 16 eða 17 ára er líklegra til þess að kjósa í sínum fyrstu kosningum en 18 og 19 ára einstaklingar. 16 og 17 ára einstaklingar hafa einnig jafn mikinn áhuga á pólitík og eldra fólk, vita jafn mikið um pólitík og eldra fólk og eru jafn hæf til þess að kjósa. Með því að sýna ungu fólki að því sé treyst til að taka stórar ákvarðanir byggist vonandi upp gagnkvæmt traust á stjórnmálunum. Valdefling ungs fólks og aukinn þáttur þess í ákvarðanatöku er af hinu góða og þótt kosningaaldur sé engin stök töfralausn þá getur hann verið mikilvægur þáttur í átaki þess efnis.

Hlustið

Breytingar á kosningaaldri hafa verið lagðar til nokkrum sinnum á undanförnum árum. Lengst náði málið á 148. löggjafarþingi (2017-2018), en þá náðist ekki að ljúka þriðju og síðustu umræðu til að greiða endanlega atkvæða um frumvarpið. Fulltrúar úr nær öllum flokkum lögðust á eitt og þingmenn Samfylkingar, Miðflokks, Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks, Pírata, Viðreisnar og Framsóknarflokks studdu tillöguna. Allt frá árinu 2014 hefur Ungmennafélag Íslands lagt til að kosningaaldur á sveitarstjórnarstigi sé lækkaður í 16 ár. Einnig er það í stefnu Landssambands ungmennafélaga að lækka kosningaaldur í 16 ár.

Nú hafa fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og óháðir þingmenn lagt fram frumvarp sem ef samþykkt myndi veita öllu íslensku fólki á aldrinum 16 til 17 ára kosningarétt í öllum kosningum. 16 og 17 ára einstaklingar vilja kjósa, hafa getu til að kjósa, hafa áhuga á því að kjósa, hafa vit til þess að kjósa og eru líklegri til þess að kjósa aftur ef þeir kjósa fyrst 16 eða 17 ára. Aðeins með því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár mun ungt fólk loks fá eigin fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir.

Við skorum á Alþingi allra Íslendinga að samþykkja þetta frumvarp.

Fyrir hönd ungmennaráðs Árborgar

Egill Ö. Hermannsson

 

Nýjar fréttir