7.8 C
Selfoss

Eimskip tekur í notkun rafbíla

Vinsælast

Tveir rafmagnsbílar bættust við bílaflota Eimskipa fyrir skömmu. Einn þeirra er kominn á Suðurland, nánar tiltekið  í vörslu Helga S. Haraldssonar, svæðisstjóra Eimskipa á Suðurlandi. Við litum við hjá Helga og skoðuðum bílinn. „Bíllinn er af gerðinni Maxus, sem er ný bílategund hér á Íslandi. Þeir eru fluttir inn frá Kína af umboðsaðila Maxus á Íslandi. Bílarnir hafa verið notaðir hjá norska póstinum við góðan orðstír svo við væntum þess að hann standi sig vel hér hjá okkur,“ segir Helgi. Aðspurður um drægni segir Helgi: „Uppgefið er að bíllinn komist allt að 353 km á einni hleðslu miðað við bestu aðstæður. Við hugsum hann fyrst og fremst sem innanbæjar bíl hér fyrir Árborg ásamt því að dreifa vörum í nágrannasveitarfélögin Hveragerði og Þorlákshöfn. Þetta verkefni er hluti af vegferð fyrirtækisins að minnka kolefnislosun hjá félaginu um 40% fyrir árið 2030.“

Lipurt ökutæki þó díseldrunurnar vanti

Helgi hendir gaman að því þegar hann ók bílnum fyrst hafi hann alltaf verið að bíða eftir því að hann færi í gang, en það væru auðvitað engar díseldrunur í honum og bíllinn liði hljóðlaust um. „Hann er bara lipur og fínn í akstri og ekkert hægt að finna að því. Ég held að þetta sé framtíðin því þróunin er það hröð heyrir maður að innan fáeinna ára verðum við líklega komin með stóru bílana í rafmagn líka.“ Er engin fyrirstaða að það taki langan tíma að hlaða? „Nei, ekki enn sem komið er allavega. Hann er í hleðslu hér yfir nótt. Þá getum við „sjússað“ inn á rafhlöðurnar milli þess sem hann er í akstri. Þetta hefur gengið stóráfallalaust og við spenntir fyrir þessari jákvæðu þróun,“ segir Helgi að lokum.

Nýjar fréttir