-1.1 C
Selfoss

Barnaplatan Út í geim og aftur heim er komin út

Vinsælast

Alexander Freyr Olgeirsson, tónlistarmaður á Selfossi gaf út barna plötuna sína ,,Út í geim og aftur heim” núna á dögunum. Alexander og söngkonan Karitas Harpa fara með hlutverk Ofur-Ólafs og Geimgerðar sem eru aðalpersónur sögunnar. Platan inniheldur 11 frumsamin lög með leikþáttum inn á milli sem fléttast saman í eina sögu. Alexander spilar inn flest hljóðfærin, tekur upp og hljóðblandar heima hjá sér. ,,Fyrsta lagið á plötunni sem ég samdi var lokaverkefni í barnabókmennta áfanga í FSu árið 2011. Mig langaði alltaf til þess að gera heila barnaplötu enda alltaf haft mikinn áhuga á íslenskum barnabókmenntum og tónlist. Það var svo ekki fyrr en sumarið 2019 þegar ég var á ferðalagi um landið með unnustu minni og dóttur að ég ákvað að láta verða að þessu. Við vorum líklega búin með allan listann af tónlist fyrir börn.” 137

Tækifæri til skemmtilegra samverustunda

,,Sagan er geimævintýri og fjallar um ofurstrákinn Ofur-Ólaf og geimprinsessuna Geimgerði sem hittast á plánetunni Ruglumbull og þurfa að leggja krafta sína saman til þess að stöðva illmennið Demónus Þumaltröll sem hyggst taka yfir plánetuna og gera íbúum hennar lífið leitt.” Segir Alexander um söguna. Alexander segir að markmiðið sé að hafa plötuna skemmtilega fyrir bæði börn og fullorðna og skapi þannig tækifæri til skemmtilegra samverustunda. Er einhver boðskapur sem leynist í sögunni? ,,Vinátta er sterkt þema á plötunni og hvað góð vinasambönd geta verið kraftmikil. En aðal boðskapurinn er að vera maður sjálfur og að maður á heima þar sem manni er tekið eins og maður er. Ekki þykjast vera einhver annar en þú ert.” 115

Aðallega Sunnlendingar sem koma að plötunni

Það hlýtur að vera mikil vinna á bak við svona verkefni. Eru einhverjir sem standa að þessu með þér? ,,Já, heldur betur! Ég leitaði til vina minna og fjölskyldu til þess að hjálpa mér. Nánast allir sem koma að plötunni eru Sunnlendingar. Vinkona mín og söngkonan Karitas Harpa fer hlutverk Geimgerðar eins og áður sagði, Salómon Smári Óskarson fer með hlutverk illmennisins og Sólveig Ásgeirsdóttir kemur einnig fram. Karítas Gunnarsdóttir sér um teikningar og Bassi Ólafsson um hljóðjöfnun. Skúli Gíslason spilar á trommur og Ævar Örn Sigurðsson spilar á bassa. Unnusta mín, Margrét Harpa, syngur inn bakraddir og dóttir okkar, Vaka Röfn, er minn helsti aðstoðarmaður og siðgæðisvörður.” Hvað finnst dóttur þinni um þetta allt saman? ,,Hún er alltaf til í að hlusta með mér og hefur verið með í ferlinu frá byrjun, hún lætur mig alveg vita ef henni finnst eitthvað lag leiðinlegt og þá bara sleppi ég því lagi.” 149

Ætla að koma fram í búningum

Alexander var með söfnun á Karolina fund fyrir ári síðan og tókst að safna fyrir kostnaði við gerð plötunnar. Á fésbókarsíðu ,,Út í geim og aftur heim” er hægt að fjárfesta í alls konar varningi s.s. geisladiskum, bolum eða litabókum. ,,Ég vona bara að þessi plata verði skemmtileg fyrir sem flesta og ef eitt barn hefur gaman af henni er markmiðinu náð.” Platan er aðgengileg á Spotify og Youtube undir nafninu ,,Út í geim og aftur heim” en einnig er hægt að kaupa geisladisk. Ætlið þið að fylgja þessu eitthvað eftir. ,,Við Karitas Harpa höfum verið að plana að koma fram í búning og syngja og dansa fyrir krakkana. Þá annað hvort á bæjarhátíðum eða tónleikum”. Við hvetjum áhugasama til þess að hlusta á ,,Út í geim og aftur heim” með börnunum.

 

Nýjar fréttir