1.7 C
Selfoss

Bakaradrengur frá Selfossi með fegurstu mottu ársins

Vinsælast

Það er engin lurða í mönnum hjá GK bakaríi á Selfossi frekar en fyrri daginn þegar blaða­maður renndi við til að bera sprettuna augum og spyrja eigandann út í verðlaunin fyrir fegurstu mottu ársins. „Þetta er ánægjulegt og mikill heiður að fá þessi verðlaun,“ sagði Guðmundur þakklátur og skenkir kaffi.

Mottan ekki vinsæl heima

Þegar ég spyr Guðmund um það hvort almenn ánægja sé með mottuna á heimilinu koma vöflur á bakarann. „Tja, ég get orðað það þannig að allir strákar eigi sér leynda drauma um að ná að púlla Tom Selleck, sem enginn getur, því það er bara einn þannig. En í mars á hverju ári fáum við glugga til þess að rækta mottuna án þess að það þyki tiltökumál. Þess vegna er um að gera að smala saman grönunum í mottu, án allra afleiðinga heima fyrir eða í samfélaginu, segir Guðmundur og brosir. Aðspurður um skegg­söfnunina kemur fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann skartar myndarlegu skeggi á efri­vörinni. „Nei þetta hefur verið venjan undanfarin ár að ég hef í janúar, febrúar byrjað að láta þetta vaxa, svona án þess að spá of mikið í það. Þetta hjálpar vetrinum að líða hraðar að fylgjast með sprettunni eins og bóndi að vori.“

Styðja myndarlega við Krabbameinsfélag Árnessýslu

Þetta er þó ekki eina verk­efnið sem Guðmundur og Kjartan hafa komið að í Mottu­mars og árvekniátaki Krabba­meins­félagsins. „Nei, það er rétt, við vorum að vekja athygli á mála­flokknum í samstarfi við Krabbameinsfélag Árnessýslu. Við notuðum okkar miðla til þess. Þá stóðum við vaktina og bökuðum hér ástarpunga sem runnu út, okkur til mikillar gleði. Þær stöllur hjá Krabba­meinsfélaginu keyrðu svo pungana til sinna eigenda. Okkur tókst að safna ágætis summu og höfum afhent það til félagsins. Okkur finnst það mikils virði að geta stutt við samfélagslega mikilvæg verkefni. Það skal hafa það í huga að einn af hverjum þremur karlmönnum getur fengið krabbamein á ævinni. Það er því til einhvers að vinna í að halda úti góðri þjónustu fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur sannarlega gert það og við leggjum okkar á vigtina í því, vegna þess að án styrkja gæti slíkt félag ekki þrifist jafn vel og raun ber vitni.“

Aftur að verðlaununum fyrir fegurstu mottuna

Hvernig kom það til að þú fékkst verðlaun fyrir fegurstu mottuna? „Það voru fagmenn hjá Rakarastofunni Herramenn í Kópavogi sem fengu það hlutverk að velja fegurstu mottuna. Ég hef greinilega tikkað í boxin hjá þeim. Í umsögn dómnefndarinnar kemur fram að skegg Guðmundar hefði verið það yfirvararskegg sem skaraði fram úr á fagurfræðilegan hátt. „Guðmundur bakari á Selfossi er að mati dómnefndar ósnertanlegur í þessum flokki.“

Nýjar fréttir