-11.4 C
Selfoss

Ályktun frá Sambandi sunnlenskra kvenna

Vinsælast

Stjórn Sambands sunnlenskra kvenna harmar þann niðurskurð sem gerður er af hálfu ríkisins varðandi fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Jafnframt er mótmælt þeirri ákvörðun framkvæmdastjórnar HSU að segja upp “í hagræðingarskyni” starfsmönnum er starfað hafa við ræstingu stofnunarinnar.

Greinargerð

Samband sunnlenskra kvenna samanstendur af 25 kvenfélögum með um 900 félagskonum í Árnes- og Rangárvallasýslu. Frá árinu 1952 hafa kvenfélögin stutt dyggilega við starfsemi sjúkrahússins á Selfossi og nú Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með ýmsum gjöfum og framlögum til tækjakaupa. Nú hefur það gerst í “hagræðingarskyni” að ráðist er á garðinn þar sem hann er lægstur, starfsmönnum við ræstingu er sagt upp. Það er nöturlegt á tímum þar sem atvinnuleysi eykst á Íslandi í kjölfar COVID-19 farsóttarinnar, að þessu starfsfólki sem staðið hefur í framlínu stofnunarinnar oft við erfiðar aðstæður í ljósi þessarar farsóttar, er sagt upp.

Margir af þessum starfsmönnum eða aðstandendur þeirra starfa innan kvenfélaganna. Þar leggja þeir oft fram sjálfboðna vinnu til að geta sinnt verkefnum er snúa að því að safna fjármunum sem síðan renna áfram til stuðnings við ýmis samfélagsleg málefni sem og á landsvísu. Má þar meðal annars nefna stuðning við heilbrigðisstofnanir landsins.

Allir Sunnlendingar eru skjólstæðingar HSU og þurfa á þjónustu stofnunarinnar að halda. Með því að segja upp þessu starfsfólki og færa störf þeirra með útboði til ræstingafyrirtækis sem hefur starfsstöðvar í Reykjavík, er verið að flytja bæði fjármagn og vinnuafl til höfuðborgarsvæðisins. Hvað segir það um kolefnisspor og umhverfisvernd?

Einkunnarorð kvenfélagastarfs á Suðurlandi eru: Virðum veröld – Vöndum valið –  Nýtum nærumhverfi.

 

 

 

 

Nýjar fréttir