1.7 C
Selfoss

Vinna, hamingja og umhverfi

Vinsælast

Störf án staðsetningar eru aðgerð sem finna má bæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og í byggðaáætlun.

Í byggðaáætlun er þetta sérstök aðgerð sem hefur það að markmið: „Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.“

Það þýðir, á mannamáli, að hæfasti umsækjandi er ráðinn og skiptir ekki máli hvort viðkomandi býr á Kópaskeri eða í Kópavogi. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti eða stofnun leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Og það virðist ekki vera vandamál. Að beiðni ráðuneytisins hefur Byggðastofnun tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar og sett myndrænt fram á korti.

Störf án staðsetningar er mjög skýr aðgerð og henni fylgja skýrir mælikvarðar. Þannig segir í byggðaáætlun að fyrir lok þessa árs, 2021, skuli 5% auglýstra starfa vera „án staðsetningar“ og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera „án staðsetningar“. En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Ríkið þarf að leggja skýrar línur. Segja má að faraldurinn hafi sýnt bæði stjórnendum og starfsfólki að búseta skiptir ekki máli með tilliti til starfa í mjög mörgum tilfellum.

Það er ekki nóg að línur séu skýrar og hugarfar stjórnenda rétt. Það er á endanum fólkið sjálft, Jón og Gunna sem kjósa að búa á landsbyggðinni, sem skipta mestu máli. Ef þau eru búsett á landsbyggðinni þá sækja þau um störf sem áður var eingöngu hægt að sinna á höfuðborgarsvæðinu eða ef þau eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og eru í störfum sem gætu verið unnin án staðsetningar þá flytja þau störfin með sér á þann stað sem þau kjósa að búa á. Ég veit að þetta hljómar eins og þetta sé ekkert mál – og ég held að þetta sé í raun ekkert mál.

Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan lesið grein um mannauðsmál fyrirtækja þar sem rætt var við forstjóra veitingasölukeðju í Bretlandi. Það hafði vakið mikla athygli hvað viðhorf og framkoma starfsmanna keðjunnar var jákvæð og að starfsmenn hefðu hærri starfsaldur en í sambærilegum keðjum. Forstjórinn var spurður hvað olli þessu, hvernig stefna fyrirtækisins í mannauðsmálum væri frábrugðin annarra. Hann sagði að stefnan væri frekar einföld. Þau legðu sig fram um að ráða hamingjusamt fólk til starfa. Ég nefni þetta hér og nú af því að ég held að störf án staðsetningar snúist ekki aðeins um byggðamál, ekki aðeins um það að ráða þann hæfasta burtséð frá búsetu heldur ekki síst um það að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt.

Ég vona að okkur takist að nýta viðhorfsbreytinguna sem heimsfaraldurinn hefur fært okkur til að stíga stór og örugg skref í átt til starfa án staðsetningar.

 

 

Nýjar fréttir