-7.7 C
Selfoss

Sigurhæðir hefja starfsemi

Vinsælast

Sigurhæðum, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi, var formlega hleypt af stokkunum 20. mars sl. með formlegri athöfn í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Gestir voru hátt í hundrað og hafa allir þeirra tengst undirbúningi Sigurhæða .Fjölmörg ávörp voru flutt og kom fram einlæg gleði með þennan áfanga í þjónustu við þolendur ofbeldis í fjórðungnum, en Sigurhæðir er fyrsta samhæfða úrræðið á því sviði í nærsamfélagi Sunnlendinga.

Margrét Harpa Garðarsdóttir staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi flutti ávarp við opnunina, en hún á sæti í verkefnisstjórn Sigurhæða. Ljósmyndari: Erling Ó. Aðalsteinsson.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra flutti opnunarávarp og fagnaði stofnun Sigurhæða. Hún greindi frá þeirri auknu áherslu á kynbundið ofbeldi sem þverpólitísk samstaða hefur myndast um á síðustu árum og birtist m.a. í breiðum stuðningi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í málaflokknum og auknum stuðningi stjórnvalda við margvísleg ný úrræði sem hafa verið sett á laggirnar á síðustu árum. Meðal annars hafa stjórnvöld stutt við bakið á Kvennaathvarfinu, sem núna reisir fjölbýlishús með íbúðum fyrir konur og börn þeirra sem dvalið hafa í athvarfinu og eiga í engin hús að venda að dvölinni þar lokinni. Einnig kom skýrt fram í máli hennar að kynbundið ofbeldi sé einn helsti þrándur í götu þess að við getum búið við fullkomið jafnrétti kynja.

Flestir þekkja Sigurhæðir sem hús Matthíasar Jochumssonar á Akureyri.  Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri sendi Sigurhæðingum árnaðaróskir þar sem sagði: „Nafnið Sigurhæðir á sér sérstakan stað í hjörtum Akureyringa. Viljum við sérstaklega óska ykkur til hamingju með það og erum við þess fullviss að því muni fylgja gæfa og blessun.“

Sigurhæðír opnuðu dyr sínar fyrir skjólstæðingum mánudaginn 22. mars. Þær eru til húsa að Skólavöllum 1 á Selfossi og eru opnunartímar fyrst um sinn á mánudögum frá kl. 16-21, fimmtudögum frá kl. 15-19 og föstudaga frá kl. 10-17. Síminn er 834 55 66 og bæði er hægt að koma inn af götunni og bóka viðtal í gegnum síma. Sjá einnig á heimasíðunni sigurhaedir.is.

Listasafn Árnesinga lagði sitt lóð á vogarskálar Sigurhæða með því að bjóða fram glæsileg salarkynni sín endurgjaldslaust fyrir opnunarhátíðina og að sjálfsögðu voru allar sóttvarnarreglur hafðar í heiðri. Ljósmyndari: Erling Ó. Aðalsteinsson.

 

 

 

Nýjar fréttir