1.7 C
Selfoss
Home Umræðan Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar árið 1958: Hugleiðingar um spönsku veikina

Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar árið 1958: Hugleiðingar um spönsku veikina

0
Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar árið 1958: Hugleiðingar um spönsku veikina

Erindi, sem Páll Kolka héraðslæknir flutti í Ríkisútvarpinu á síðast liðnum vetri, um spönsku veikina 1918, voru að mörgu leyti fróðleg og lærdómsrík, sérstaklega fyrir embættismenn þjóðarinnar. Þau sýndu glöggt, sem þó var áður vitað, svo ekki verður um villzt, hvaða ábyrgð embættismenn þjóðarinnar bera í sínu starfi gagnvart fólkinu og málefnum þess, sem þeir hafa verið kjörnir til að þjóna.

Nú ætla ég að nota mér þetta tækifæri, sem þessi dugnaðar og góði læknir, Páll Kolka gaf tilefni til í erindum sínum til þjóðarinnar, og skrifa nokkur orð um mína skoðun á þessum farsóttarmálum yfirleitt. Það er þá fyrst til að taka með spönsku veikina. Ég hygg, að aldrei síðan landið byggðist hafi verið betra tækifæri til að stöðva farsótt til landsins en þá, vegna þess, sem nú skal greina: Þá voru milliferðir til landsins lamaðar eftir fyrri heimsstyrjöldina og yfirleitt allt atvinnulíf, svo reyrð var yfir öllu að byrja með. Þá var tækni líka komin til sögunnar, svo það mátti hafa samband við útlönd, án þess að ferðast á milli landa, sem var aðalatriðið. Það var kominn vetur og því hentugur tími til að stöðva milliferðir á meðan hættan stóð yfir, og hvað var það á móti því sem á eftir kom, nema hreint ekki neitt.

Ég geri ráð fyrir, að þáverandi landsstjórn hafi farið eftir ráðum landlæknis, því hans embætti mun bera ábyrgð á því, hvað gera skuli í sóttvarnarmálum yfirleitt. Enda hafði þáverandi landlæknir orð á sér fyrir gáfur og röggsemi. En lengi skal manninn reyna. Því þegar mest reyndi á, þá kom í ljós, að hann var ekki vaxinn sínu starfi, eins og sýndi sig eftirminnilega hjá fólkinu í Reykjavík, sem mest varð fyrir hörmungum farsóttarinnar. Eftir því sem Páll Kolka sagði í einu erinda sinna, þá hefur staðið tæpt að landlækninum væri vært í Reykjavík, sem von var eftir þetta allt saman, sem á undan var gengið. Og þótt öllum geti yfirsézt, þá er ég þeirrar skoðunar, að hver maður, hvað þá embættismaður, beri ábyrgð á sínu starfi gagnvart þjóðinni. Eftir því sem staðan er hærri, því meiri ábyrgð.

Eins og að framan segir, var auðvelt að stöðva samgöngur hingað til lands eins og á stóð þá, og ef þeir ráðamenn hefðu athugað það – að það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann og líka það, að búast við því verra, því það góða skaðar ekki, og þá hefði betur farið.

Þótt það sé áður kunnugt, hvernig tekið var á þessu sóttvarnarmáli í Skaftafellssýslu á þeim tíma, þá ætla ég samt að segja þá sögu dálítið nánar í sambandi við þetta sóttvarnarmál, sem að framan greinir.

Þáverandi sýslumaður Skaftfellinga, Gísli Sveinsson í Vík, vildi byrgja brunninn í tíma, og búast við því verra, því það góða skaðar ekki. Hann ákvað og framkvæmdi algerlega á sitt eindæmi að banna samgöngur við Skaftafellssýslu með það fyrir augum að verjast spænsku sóttinni. En erfiðleikar voru þó á þessu innanhéraðs eða heima fyrir, vegna þess, að héraðslæknarnir höfðu enga trú á þessu, og fleiri forustumenn héraðsins töldu að þetta væri bara hræðsla, sem yrði til óþæginda og truflunar á samgöngum, o. s. frv.

Það mátti því segja, að sýslumaðurinn stæði einn uppi með þetta vandamál, sem varð að gera út um annað hvort strax eða ekki. En reyndin varð sú, þótt tæpt stæði. Sýslumanni tókst fyrir mikinn dugnað og ráðdeild að koma vörnum á, bæði á sjó og landi. Og þeir menn, sem hann setti yfir að fylgja þeim reglum, sem hann fyrirskipaði, gerðu það með trúmennsku, svo allt tókst þetta prýðilega, eins og kunnugt er. Og gat það vissulega gefið öðrum hæfilegt fordæmi til athafna.

Mér datt í hug, þegar Páll Kolka héraðslæknir var að enda útvarpserindin sín, að það hefði verið nokkuð líkt með þá Gísla Sveinsson sýslumann. Þegar þeir byrjuðu sitt embættisstarf, mætti þeim strax alvara lífsins, sem varð þeim báðum dýrmætur skóli reynslunnar, og aflgjafi til þroska, um þeirra embættistíð. Báðum þeim mætti spænska sóttin í algleymingi á sinn hátt, hvorum fyrir sig, og báðir stóðust þeir raunina með óvenjulegum kjarki og dugnaði, enda síðan verið í sínum embættum til sóma og fyrirmyndar, svo sem kunnugt er.

Páll Kolka sagði, að mig minnir, að næsta sumar þar á eftir hafi væg inflúenza gengið í Reykjavík og eitthvað úti um landið. Austur í Skaftártungu barst hún þannig: Tveir menn að austan (embættismenn) voru á ferð í Reykjavík og fengu þá veiki, en lögðust ekki, fóru svo austur og ætluðu sér að liggja hana úr sér heima, og enduðu svo þetta ferðalag sitt með því að fara um hánótt austur yfir Mýrdalssand, með þeim afleiðingum, að þeir lögðust báðir í Skaftártungunni og annar þeirra fékk lungnabólgu og dó. Með þeim barst veikin í Tunguna, með þeim afleiðingum, að einn bezti bóndinn þar andaðist og annar bóndi lá mikið af sumrinu, og stúlka sömuleiðis, á bezta aldri o. s. frv. Ef þessir ferðamenn hefðu ekki farið úr Reykjavík fyrr en þeir voru hitalausir, þá hefði allt farið vel, og veikin ekki borizt austur í það sinn. Annars er það undarlegt, hvað sumir menn, þótt góðir séu að öðru leyti, geta verið kærulausir fyrir sig og aðra, að bera smitandi sóttir milli manna.

Rétt fyrir síðustu aldamót, sem oftar, gekk yfir mögnuð inflúenza síðari hluta um hávetur, á þann hátt barst hún í Skaftártunguna þá, að haldin var skírnarveizla í Gröf, sem stendur miðvegis í hreppnum, og þótt snjór mikill væri á jörð, þá fóru einn og fleiri frá hverjum bæ í veizluna, nema einum, Ytri-Ásum, og þegar veizlan stóð sem hæst, kemur þar ferðalangur að austan, vestan frá Vík, og þar hafði þá veikin verið. Endaði þá þessi samkoma með því, að þessi maður smitaði alla þá sem voru þarna staddir, svo að allir lögðust á sama degi, og á sumum bæjum mátti segja á sama klukkutíma, og varð fólk þungt haldið, og einn miðaldra bóndi andaðist, Vigfús á Búlandi. Enda varð einn og einn maður að reyna að dragast út til að gegna skepnunum, og svo mun hafa verið með hann.

Bóndinn frá Ytri-Ásum kom að Eystri-Ásum, um leið og allir voru að leggjast þar, og hitti mann úti, veikan þó, sem sagði honum hvernig komið væri, án þess að þeir kæmu saman. Dró Ytri-Ása bóndinn sig þá til baka og fór heim til sín, og hafði það heimilisfólk svo ekki samband við neinn úr því fyrr en veikin var um garð gengin, og slapp það heimili við veikina algjörlega.

Það er óhætt að slá því föstu, að enginn er betri eftir að fá inflúenzu, þvert á móti; margur hefur orðið illa úti af hennar völdum, vegna ýmissa kvilla sem mönnum hafa fylgt úr því, eða leitt til bana, eins og Páll Kolka læknir hefir áður skrifað um. Mér hefir alltaf, eins og áður segir, þótt það mikið kæruleysi fólks, og þá sérstaklega ráðamanna þjóðarinnar, og ég tala ekki um læknana, hvað lítið hefir verið að því gert að stoppa farsóttir, hvert sinn sem þeirra hefir orðið vart, á hverjum tíma, sem þær hafa geisað, svo að ekki hefir verið hægt að varast það fyrr en í ótíma. Oftast hefði það þó verið auðvelt, ef að því hefði verið unnið í tæka tíð, því hvað er það þótt það valdi nokkrum óþægindum á móti því að láta sóttina geisa yfir, og leggja flesta í rúmið og suma í gröfina. Fyrir nær 40 árum þegar Katla gaus 1918 mátti segja að spænska veikin væri henni samferða, sem líka kom mjög við sögu í byrjun sýslumannsembættis Gísla Sveinssonar. En þar stóð hann ekki einn uppi, því að Lárus Helgason á Klaustri og fleiri framámenn sýslunnar fylgdu honum í því máli, héraðsbúendum til ráða og dáða á ýmsan hátt sem ekki verður orðlengt hér.

Þá var Alþingi og ríkisstjórn ekki eins gjöful á ríkisfé sem nú undanfarin ár. En þótt það sé mjög nauðsynlegt að ríkið hlaupi undir baggann og hjálpi mönnum og plássum sem verða fyrir tjóni af náttúruvöldum, svo sem eldgosum, jarðskjálftum, skriðuföllum o. fl. óviðráðanlegum náttúruhamförum. En það má ekki ala upp í mönnum sjálfsbjargarleysið með ríkisstyrkjum, svo sem ef sumir bændur í sama plássi geta náð öllum sínum heyjum prýðilega verkuðum í hlöður, en aðrir bændur við hliðina á þeim geta engan bagga hirt. Ef ekki er um að kenna heilsuleysi, þá er eitthvað að hjá þeim síðarnefndu sem ekki ber að styrkja beinlínis með ríkisfé, heldur ber að athuga hvað það sé helst, sem gerir mismuninn, því þar getur margt komið til greina, sem hægt væri að laga.

Um sumarmál 1958

 

Sigurður Sigursveinsson og Sveinn Runólfsson tóku saman