1.7 C
Selfoss
Home Umræðan Garðyrkjunámið á Reykjum í Ölfusi er stolt Suðurlands

Garðyrkjunámið á Reykjum í Ölfusi er stolt Suðurlands

0
Garðyrkjunámið á Reykjum í Ölfusi er stolt Suðurlands
Karl Gauti Hjartarson.

Í síðustu viku lagði ég spurningar fyrir menntamálaráðherra á Alþingi um þá nýlegu ákvörðun hennar að flytja starfsmenntanám í garðyrkju undan Landbúnaðarháskólanum. Framtíð garðyrkjunámsins er í ákveðinni óvissu á meðan ekki liggur ákvörðun um hvernig tilhögun þess verður. Spurningar mínar sneru að því hvernig framtíð starfsmenntanáms í garðyrkju á Reykjum í Ölfusi yrði tryggt. Í því sambandi lagði ég áherslu á að Garðyrkjuskólanum yrði falin umsjón og staðarhald á Reykjum í virkri samvinnu og samráði við forsvarsmenn samtaka á vettvangi garðyrkjunnar og starfsfólk og kennara á staðnum.

Innlend framleiðsla stórefld

Mikill einhugur er um að stórefla innlenda framleiðslu í garðyrkju og landbúnaði, ekki síst í því ástandi sem við höfum gengið í gegnum að undanförnu. Á sama tíma berast ánægjulegar fréttir af því að garðyrkja í landinu sé í miklum uppgangi, sannur vaxtarbroddur atvinnulífs og sjálfbærni. Tryggja þarf betur fæðuöryggi þjóðarinnar með aukinni matvælaframleiðslu í öllum greinum. Íslendingar eiga að framleiða sem mest af sínum matvælum sjálfir. Að auki styður innlend framleiðsla við aðgerðir okkar í loftslagsmálum.

Iðn- og starfsmenntanám

Tyllidagar eru iðulega notaðir til að tala um að hefja iðn- og starfsmenntanám til meiri virðingar. Í því sambandi er grundvallaratriði að fótunum verði ekki kippt undan starfsmenntanáminu á Reykjum. Tryggja þarf náminu forgang að því húsnæði og landrými sem því er nauðsynlegt. Garðyrkjunámið þjónar nú sex atvinnugreinum og nemendur hafa verið á breiðu aldursbili, ólíkt því sem gerist með annað nám á framhaldsskólastigi. Mikið og gott samstarf hefur verið við atvinnugreinarnar sjálfar og það leitt af sér skjóta aðlögun námsins að breytingum sem eiga sér stað. Nauðsynlegt er að halda í þá sérstöðu sem skólinn hefur haft að þessu leyti.

Stolt Suðurlands

Garðyrkjuskólinn hefur í áratugi verið sannkallað stolt Ölfuss, Hveragerðis og alls Suðurlands. Brýnt er að styðja við öflugt skólastarf úti á landi og ekki síst þar sem það hefur vaxið og dafnað hingað til. Það er ekki að ástæðulausu sem fólk á Suðurlandi hefur áhyggjur af framtíð garðyrkjunámsins á Reykjum. Við þekkjum afdrif Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Garðyrkjunámið á ekki skilið að lenda á hrakhólum. Slíkt er mikilvægi námsins, saga skólans og starfið á Reykjum.

Haldið um fjöreggið

Afar mikilvægt er að hér takist vel til svo garðyrkjunáminu verði sköpuð örugg framtíð í nánum tengslum við atvinnugreinar garðyrkjunnar og áfram verði boðið upp á metnaðarfullt garðyrkjunám á framhaldsskólastigi. Þá má það ekki gerast að þrengt verði svo að athafnasvæði skólans að hann eigi ekki möguleika á að þróast áfram. Það er vísasta leiðin til að námið liðist í sundur. Vanda skal til verka þegar haldið er um fjöregg garðyrkjunnar, sem námið á Reykjum sannarlega er.

Karl Gauti Hjaltason

Höfundur er þingmaður miðflokksins í Suðurkjördæmi

kgauti@althingi.is