3.9 C
Selfoss

Afrekshugur heima

Vinsælast

Þann 26. febrúar síðastliðinn veitti ríkisstjórn Íslands félaginu Afrekshugur 4 milljóna króna styrk til þess að láta gera afsteypu af verki Nínu Sæmundsson Afrekshugur eða Spirit of Achievement, sem hefur verið táknmynd Waldorf Astoria hótelsins í New York síðan 1931.

Afsteypuna vill félagið láta reisa á Hvolsvelli til ævarandi minningar um frægustu listakonu héraðsins og fyrstu íslensku konuna sem gerði höggmyndalist að ævistarfi og naut alþjóðlegrar frægðar fyrir verk sín.

Stjórn Afrekshuga skipa: Friðrik Erlingsson, rithöfundur. Guðjón Halldór Óskarsson, organisti og stjórnandi Karlakórs Rangæinga. Anton Kári Halldórsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings eystra. Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari og þýðandi. Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, myndlistarmaður.

Spirit of achievement / Afrekshugur

Árið 1930 boðaði Waldorf Astoria hótelið til samkeppni meðal myndlistarmanna í Bandaríkjunum um höggmynd sem skyldi verða einkennistákn hótelsins. Nína, þá nýflutt til New York, sendi inn hugmynd sína að verkinu Spirit of Achievement. Af 400 innsendum tillögum valdi dómnefndin verk Nínu. Styttan var sett upp fyrir ofan inngang hótelsins árið 1931 og hefur öðlast ódauðlegan sess sem eitt af einkennistáknum borgarinnar og er auk þess einkennandi verk fyrir þetta tímabil í listasögunni, sem kennt er við Art Deco.

Nína Sæmundsson

Nína Sæmundsson var fædd Jónína Sæmundsdóttir í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 22. ágúst 1892. Nína var yngst fimmtán systkina, fædd inn í bændasamfélag 19. aldar þar sem fáar konur í alþýðustétt fengu tækifæri til að ráða lífi sínu eða láta draumana rætast. En upphafið að ferli hennar varð ævintýri líkast. Á unglingsaldri flutti hún til frænku sinnar í Kaupmannahöfn sem styrkti hana til náms. Nína nam fyrst við hina Konunglegu dönsku listaakademíu, var boðið að sýna verk sín m.a. í París og Róm en starfaði lengst af í Bandaríkjunum. Saga hennar er öðrum þræði saga mikilla sigra, en um leið harmrænna örlaga sem höfðu mikil áhrif á líf hennar. Nína bjó frá upphafi yfir miklum viljastyrk og brennandi áhuga á listum og þróaði sinn klassíska stíl, þar sem hún sameinar hið stórbrotna og hið innilega. Hin uppreista manneskja varð eitt af helstu þemum hennar, ásamt andlitsmyndum, sem hún gerði að sérgrein sinni. Þekktust er Nína fyrir höggmyndir sínar, þ.á m. Sofandi drengur, Móðurást og Afrekshugur. Nína lést í Reykjavík 29. janúar 1965.

Um afsteypuna

Þegar endurbætur á Waldorf Astoria hótelinu hófust, 2016, var stytta Nínu tekin niður og sett í geymslu. Hótelið lét gera þrívíddarskönnun af styttunni og þessi skönnun verður notuð við gerð afsteypunnar. Fyrirtækið Skulpturstöberiet í Danmörku, sem hefur áratuga reynslu í þjónustu við myndhöggvara hvaðanæva úr heiminum, mun steypa eftirmynd styttunnar í fullri stærð, 263 sentimetra á hæð.

Samingaviðræður um flutning afsteypunnar til Íslands standa yfir, sem og við flutningsaðila frá tollafgreiðslu og til Hvolsvallar. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur frá upphafi verið afar jákvæð gagnvart þessu verkefni, mun taka að sér að sjá um gerð stöpuls og undirbúning svæðisins þar sem Afrekshugur mun standa, á fyrirhuguðu miðbæjarsvæði samkvæmt aðalaskipulagi, en þaðan mun hún horfa til suðurs og yfir þjóðveg nr. 1. Aðkoma að styttunni verður auðveld fyrir alla þá sem vilja virða hana fyrir sér í návígi.

Afrekshugur stendur fyrir allt það sem við öll viljum geta búið yfir þegar á reynir. Síðasta ár hefur sýnt okkur að sem betur fer eru afrekshugir víða í okkar samfélagi. Þegar verkefnin framundan virðast óleysanleg, þegar ekkert virðist ganga eftir sem við ætluðum okkur – þá þurfum við að vekja afrekshugann innra með okkur. Sterkari brýning til góðra verka verður varla fundin en Afrekshugur Nínu Sæmundsson.

Þitt framlag

Félagið Afrekshugur var stofnað í þeim tilgangi að safna styrkjum til þessa verkefnis. Þann dag sem styttan verður afhjúpuð á Hvolsvelli verður félagið lagt niður og ef eitthvað er inni á reikningi þess verður þeim fjármunum skipt á milli björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli og góðgerðarmála. Kostnaður við afsteypu og flutning er á bilinu 7-9 milljónir.

Stjórn Afrekshuga vill hvetja alla landsmenn, og Sunnlendinga sérstaklega, til að leggja þessu máli lið með 5.000 kr. framlagi, með því að senda nafn og kennitölu á netfangið afrekshugur@gmail.com og fá beiðni senda í heimbanka. Þeir sem vilja styrkja verkefnið með hærri upphæð eru beðnir um að tilgreina þá fjárhæð í þessum sama tölvupósti.

 

 

Nýjar fréttir