-10.3 C
Selfoss

Ljósmyndaklúbburinn Blik lagði land undir (þrí)fót

Vinsælast

Ljósmyndaklúbburinn Blik á Selfossi, sem telur um 60 meðlimi, var stofnaður á vordögum árið 2008 og hefur starfað óslitið síðan og haldið fjölda sýninga á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu, oftast þó á Hótel Selfossi í tengslum við lista- og menningarhátíðina Vor í Árborg. Fundir eru haldnir hálfsmánaðarlega yfir vetrartímann, annan hvern miðvikudag en covid hefur sett strik í reikninginn og fundahöld legið niðri í vetur. En nú er veiran á undanhaldi og brugðu sautján félagar undir sig betri fætinum laugardaginn 6. mars sl. Leiðin lá austur í Vík í Mýrdal þar sem tveir tröllauknir fjallabílar frá Southcoast Adventure biðu okkar og fóru með okkur að Kötlujökli til að skoða íshelli sem þar hefur myndast undanfarin ár. Allir fengu brodda og hjálma og veðrið lék við hvurn sinn fingur. Íshellirinn er í jaðri gígs eins öflugasta eldfjalls landsins, Kötlu. Hellirinn breytist á hverjum degi en er alltaf mögnuð sýn. Leiðsögumennirnir útskýrðu fyrir okkur hvernig svona hellar myndast og fleira um svæðið. Katla, sem gaus síðast árið 1918 lét ekki á sér kræla enda sá í neðra upptekinn þessa dagana við Keili á Reykjanesi. Eftir mikið labb og linnulausa myndavélaskothríð fórum við á Hótel Vík í Mýrdal og snæddum kvöldverð og skoðuðum myndir hvert hjá öðru og heimamaðurinn Þórir N. Kjartansson setti upp myndasýningu og fræddi okkur um Kötlu og hennar óskunda í gegnum tíðina áður en gengið var til náða. Þórir er hafsjór af fróðleik um Kötlu og Vík og svæðið þar í kring og þekktur fyrir sínar fallegu ljósmyndir. Eftir árbít morguninn eftir lá leiðin upp á Reynisfjall í fylgd Þóris sem sagði okkur frá því sem fyrir augu bar. Þar er ægifagurt yfir að líta; útsýn yfir Vík, Dyrhólaey og Reynisdranga frá öðru sjónarhorni.

Þegar niður var komið renndum við að Hjörleifshöfða og heilsuðum upp á Yoda í hellinum sem þar er. Útlendingarnir kalla hellinn „Yoda Cave“ því hellismunninn minnir á samnefnda persónu úr Star Wars. Svo héldum við heim á leið með minniskortin full af minningum og stórkostlegum myndum. Frábær ferð í alla staði. Við hvetjum sem flesta til að hafa samband við klúbbinn og vera með í frábærum félagsskap. Allir velkomnir. Við stefnum á að halda sýningu í Hótel Selfossi á Vori í Árborg í apríl. Hægt er að hafa samband við Sólveigu Stolzenwald í síma 863 7273 og fá frekari upplýsingar. Einnig er hægt að sækja um aðild á www.blik.is.

 

Nýjar fréttir