-11.1 C
Selfoss

Tveir hópar eldri borgara

Vinsælast

Við, sem erum í hópi 5000 eldri borgarar af um 43 þúsund eldri borgurum 67 ára og eldri, njótum þess að fá engar greiðslur frá almannatryggingum (TR), enda þótt við eigum rétt á að fá lága greiðslu grunntrygginga frá TR, eins og var óslitið til 2009.  Við, sem höfum með lífeyri, vinnu og fjármagnstekjum yfir kr 600.000 á mánuði, þurfum ekki að sæta 45% skerðingu  á tekjum okkar umfram kr 25.000 á mánuði  eða skerðingu á vinnulaunum eða verktakagreiðslum um 45% umfram kr 100.000 á mánuði frá TR.

 Það sem var gert fyrir okkur

Við breytingar á skatta- og gjaldakerfi ríkisins í upphafi þessa árs, lækkuðu hjá þeim hópi, sem ég tilheyri skattar, þó skattleysismörkin hefðu verið lækkuð annað árið í röð, en það kom ekki að sök vegna þeirra tekna sem við höfum. Skattalækkunin hvarf næstum hjá hinum hópnum. Við sem höfum efni á lagfæringu íbúðarhúsa, fengum hækkun á endurgreiðslu VSK-skatts vegna vinnu úr 60% í 100%. Langþráð lagfæring fékkst um afnám skattlagningar á söluhagnaði sumarhúsa, sem nýtist okkur vafalaust betur en hinum hópnum. Við sem eignir eigum, fengum einnig þá leiðréttingu fyrir afkomendur okkar, að skattfrelsismörk erfðafjársskatts voru hækkuð úr 1,5 milljónum í 5 milljónir króna. En það sem var einkum gert fyrir okkur, umfram hinn hópinn, var að frítekjumark fjármagnstekna frá skatti var hækkað um 100%,  úr 150 þúsund í 300 þúsund kr. á ári. Frítekjumark hjá hinum hópnum  er 0 kr frá skatti og að auki með óbreytt skerðingarmörk hjá TR, eins og undanfarin fjögur ár.

Hvað var gert fyrir  hinn hópinn, um 38 þúsund eldri borgarar?

Engar bætur hafa náðst fram til þeirra, heldur þvert á móti, að þeir sem minnst hafa innan hópsins, fengu smátt og smátt minna undanfarin 11 ár í samanburði við aðra hópa í þjóðfélaginu. Greiðslur frá TR hafa ekki fylgt launa¬þróun frá hruni og skerð¬ing¬arnar hafa skert enn frekar greiðslur allt frá 2009 og verið óbreyttar hjá núverandi ríkistjórn frá 2017, þótt allar aðrar greiðslur í sam¬fé¬lag¬inu hafi árlega tekið mið af verð¬lagi og launa¬þró-un. Um 32000 eldri borgarar fá skerðingar á greiðslum, um 3500 eldri borgarar á hjúkrunarheimilum eru ofurskertir og líklega um 2700 eldri borgarar þiggja ekki greiðslur frá TR. Þeir vinna lengur, því þeir meta meira frelsi til að vinna og frelsi frá eftirliti TR, en að fá skertar greiðslur frá stofnuninni.  Ein lagasetning var þó gerð 3. júlí 2020 af núverandi stjórnarflokkum um viðbótarstuðning við aldraða.  Það var stuðningur, sem átti að ná, líkega til um 800 eldri borgara hér á landi, innflytjanda, sem höfðu ekki réttindi til greiðslu frá TR og til Íslendinga, sem höfðu misst réttindi vegna búsetu erlendis, enda þótt þeir hefðu áður greitt til almannatryggginga og sjúkrasamlaga hluta af launum sínum til 1986 og eftir það sambærilegar greiðslur með hækkun skattprósentu. Þessi lagabreyting er eina bótin sem ráðherrar  geta höfðað til um hækkaðar greiðslur, þegar þeir segja að staða eldri borgara hafi verið bætt í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar.

Lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða nr 74 / 3.7. 2020

Lögin kveða á um 90% af grunngreiðslu TR til eldri borgara, eða kr. 129.310, en með heimilisuppbót kr. 170.784 á mánuði, báðar eftir skattgreiðslu. Lögin eru í svo mörgum ýtarlegum lagagreinum með skerðingum, hindrunum og eftirliti frá TR að aðeins  höfðu 141 einstaklingur líklega af um 800 sótt um þessar greiðslur  í ársbyrjun 2021.

Niðurstaða

Núverandi ríkisstjórn hefur nær ekkert gert í þágu þeirra, sem fá greiðslur frá TR, þrátt fyrir skrifuð loforð og framsetningu í þingræðum um úrbætur. Hún hefur viðhaldið áfram skerðingarákvæðum fyrri ríkistjórna vinstri flokka. Að núverandi ríkistjórn sjái ekki einu sinni réttlæti í því að eldri borgarar, sem minnst hafa, fái að vinna sér til bjargar og greiða skatta af þeim launum, er óskiljanlegt, sérstaklega í ljósi þess, að rökstyðja má að það kosti ríkisjóð nánast ekkert. Í stað þess er viðhaldið skerðingum, sem jafngilda skattlagningu um 80% af vinnu umfram 100 þúsund kr. á mánuði.

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir