-4.4 C
Selfoss

Rafíþróttamót á Suðurlandi á morgun

Vinsælast

Rafíþróttir eru tiltölulega nýjar af nálinni hér á Íslandi. Í Árborg er starfræktur rafíþróttaklúbbur þar sem meðlimir æfa sig í tölvuleikjaspili og verða betri spilarar fyrir vikið. Þessari grein íþrótta hefur verið legið á hálsi að vera ekki jafngild öðrum en það viðhorf er, sem betur fer, á undanhaldi, enda þarf margt að ganga upp til þess að ná til afreka í rafíþróttum eins og öðrum íþróttum. Framundan er spennandi rafíþróttamót og af því tilefni tókum við  Jón Hjört Sigurðarson yfirþjálfara hjá Selfoss eSports og Dagbjörtu Harðardóttur, forstöðukonu frístundahúsana í Árborg tali um verkefnið.

Mótið opið öllum í 6.- 10 bekk sem hafa áhuga

Eins og áður sagði er spennandi rafíþróttamót þar sem krakkar á Suðurlandi fá tækifæri til að keppa á móti hvort öðru í uppbyggjandi umhverfi í tölvuleiknum Rocket League. „Mótið er í boði fyrir alla sem eru í 6.-10.bekk. Rafíþróttadeild UMFS sér um utanumhaldið með mótinu og Zelsíuz tekur svo við keppendum þegar þeir hafa lokið keppni, en í Zelsíuz verður streymt frá öllum leikjum úr mótinu. Pizza og verðlaunaafhendingin fer einnig fram í Zelsíuz,“ segja Dagbjört og Jón Hjörtur.

Stefnir í góða þátttöku

Hvernig fer þetta fram? „Rafíþróttamót fer fram ekki ósvipað og önnur mót. Þetta tiltekna mót verður riðlamót þar mun vera spilað í riðlum og þeir sem vinna sinn riðill spila á móti öðrum riðlasigurvegurum um úrslitasætin. Mótið er byggt upp á tveggja manna liðum sem spila þá saman tveir á móti tveimur en stærð og fjöldi riðla fer eftir hversu mikil þátttaka verður á mótinu en allt stefnir í mjög góða þátttöku,“ segir Jón Hjörtur.

Félagsfærni og tölvuleikir geta vel farið saman

Nú hefur tölvum og leikjaspili verið stillt upp með slakri félagsfærni barna hvað segið þið um það? „Það er mýta sem við höfum verið að takast á við alveg frá því að starfið fór af stað og í raun langt þar á undan. Ég held að þetta sé ekki endilega rangt en snýr líklegast í hina áttina. Börn sem eru ekki með góða félagsfærni hafa getað leitað í leikina því hann hefur gert minni kröfur á þau. Þegar þau koma til okkar þá vinnum við í því með þeim að vera hluti af liði og vera hluti af hóp. Þó svo að við séum eingöngu á fyrsta árinu okkar höfum við nú þegar fengið að sjá mörg börn sem hafa staðið illa félagslega, eignast vini, en það er eitthvað sem þau höfðu ekki áður. Höfum við einnig fengið það staðfest að nokkrir af skráðum iðkendum hjá okkur hafa ekki verið í virku starfi innan UMFS síðan 2004/2005 en blómstra svo hjá okkur. Við tökum á móti öllum þeim sem leita til okkar og styrkjum þá einstaklinga í félagsfærni, leikjum og liðsheild,“ segir Jón Hjörtur og Dagbjört tekur undir.

Um 75 sem sækja æfingar í hverri viku

Hvað eru margir sem sækja æfingar hjá klúbbnum um þessar mundir? „Í dag erum við með 4 hópa og þar af eru 3 nánast fullir, við erum að gera smá breytingar og auka pláss í leiknum Rocket League vegna mikillar eftirspurnar. Við þjónustum einnig skólana á Selfossi og eru þjálfarar frá okkur að sjá um kennslu sem valgreinar í bæði Vallaskóla og Sunnulækjarskóla. Í dag fara um 75 börn í gegnum rýmið í hverri viku, mismunandi hvort þau komi einu sinni eða tvisvar í viku. Við erum að ljúka fyrsta árinu okkar núna í júní og höfum við verið mjög ánægðir með þær viðtökur sem starfið hefur fengið. Við höfum lært helling á þessu ári sem styrkir starfið okkar enn frekar. Við erum í dag með 4 þjálfara hjá okkur og af þeim eru einn búinn með fyrsta hluta af þjálfaramenntun ÍSÍ, 2 eru í náminu núna og síðasti er í kennaranámi, eða til að orða þetta öðruvísi eru allir þjálfara okkar í námi tengt þjálfun eða kennslu,“ segir Jón Hjörtur.

Mótið liður í því að búa til virkt starf á Suðurlandi

„Rocket league mótið er liður í því að búa til virkt starf á svæðinu og viljum við öll sem komum að þessu starfi hvetja foreldra til að fylgjast með börnunum sínum keppa á laugardaginn. Munum við gera okkar besta að streyma sem flestjum leikjum og verður hægt að finna upplýsingar á facebook síðunni okkar Selfoss eSports,“ segir Jón Hjörtur að lokum.

Nýjar fréttir