3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Æskan er framtíðin, búum börnum okkar gott samfélag!

Æskan er framtíðin, búum börnum okkar gott samfélag!

0
Æskan er framtíðin, búum börnum okkar gott samfélag!
Lilja Einarsdóttir.

Í Rangárþingi eystra hefur verið unnið jafnt, þétt og örugglega að málefnum fjölskyldunnar. Það skal því engan undra að hér byggist hratt og örugglega upp gott samfélag þar sem uppbygging innviða hefur verið höfð að leiðarljósi á undanförnum árum.

Í Rangárþingi eystra eru endalaus tækifæri til útivistar og náttúran handan við hornið, enda erum við hliðið að hálendi Íslands þar sem það gerist fallegast. Ferðaþjónusta skipar því stóran sess í atvinnumálum, auk landbúnaðar sem og þjónustustarfa.

Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélaginu á undanförnum misserum og nú fyrir skemmstu voru auglýstar hér á Hvolsvelli á þriðja tug íbúðalóða í nýju hverfi, auk atvinnu og iðnaðarlóða sem lausar eru til úthlutunar. Deiliskipulagi metnaðarfulls miðbæjar er nýlokið og deiliskipulag á Kirkjuhvolsreit er á lokametrunum. Þar er gert ráð fyrir stækkun hjúkrunar- og dvalarheimilisins Kirkjuhvols, stækkun heilsugæslu og á annan tug íbúða fyrir eldri borgara. Síðast en ekki síst er vinna við deiliskipulag skóla- og íþróttasvæðis langt á veg komin, þar sem gert er ráð fyrir allt að 10 deilda leikskóla sem verið er að hefjast handa við að byggja. Þetta lýsir metnaði sveitarstjórnar,  enda ein stærsta einstaka framkvæmd sem ráðist hefur verið í í sveitarfélaginu.

Í Rangárþingi eystra tökum við á móti 12 mánaða börnum í leikskóla enda markmið að fæðingarorlof foreldra og fyrsta skólastigið nái saman. Það er nú orðið að veruleika, enda mikið heillaskref þegar fæðingarorlof var lengt í 12 mánuði. Rangárþing eystra er einnig komið í hóp þeirra sveitarfélaga sem eru í samstarfi með félagsmálaráðuneytinu á innleiðingu barnvæns samfélags, auk þess að vera heilsueflandi samfélag. Hér er mjög öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf sem er í samfellu við skóladaginn svo öllum börnum gefst kostur á þátttöku burtséð frá búsetu.

Nú í byrjiun janúar opnaði á Hvolsvelli VISS vinnu- og hæfingarstöð sem hefur fengið fádæma viðtökur og eru þar nú þegar 6 einstaklingar við störf. Fyrir liggur að fara í þarfagreiningu á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, enda þörfin verið vaxandi á liðnum árum.

Þó að vissulega hafi heimsfaraldur vegna Covid-19 haft áhrif á atvinnumálin hér sem annarsstaðar, þá hafa skapast tækifæri sem nauðsynlegt er að grípa. Störf án staðsetningar er eitt af því góða sem við ættum að taka með okkur inn í næstu framtíð. Við í Rangárþingi eystra höfum glæsilega skrifstofuaðstöðu fyrir slíka starfsemi sem skapar möguleika fyrir fólk að vinna í fjarvinnu. Þegar er aðstaðan nýtt til slíkrar starfsemi með góðri reynslu.

Góð grunnþjónusta hefur byggst upp á Hvolsvelli, og má þar nefna glæsilega Krónuverslun, heilsugæslu sem verið er að endurbæta og stækka, sjúkraflutninga, lögreglu, bygginga-, gjafavöru- og búvöruverslanir, auk veitinga- og ferðaþjónustufyrirtækja svo fátt eitt sé nefnt.

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins, svo hún geti vaxið og dafnað þarf grunnþjónusta og gott samfélag að vera til staðar og það höfum við lagt allt kapp á að skapa í Rangárþingi eystra. Árangurinn er tvímælalaus og stefnan er skýr, áfram veginn.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra og oddviti Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.