Síðastliðið haust auglýsti Rannís, sem er landsskrifstofa Erasmus+ á Íslandi, eftir umsóknum í nýtt verkefni sem kallast Erasmus+ skóli. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri sótti um að vilja efla sig á fimm sviðum með aðstoðar Evrópusamstarfs. Sviðin fimm eru umhverfismennt, heilsueflandi skóli, teymsikennsla, stafræn menntun og menntun fyrir alla. Umsóknin var unnin af Sigríði Pálsdóttur verkefnastjóra Ersamus+ í BES og deildarstjóra yngra stigs.
Í lok febrúar bars bréf frá Rannís á þar sem skólinn fékk umsóknina samþykkta. Það sem skilur þetta verkefni frá öðrum verkefnum er að hægt er að sækja um margvísleg verkefni sem við viljum framkvæma á 5 árum. Í stað þess að sækja um hvert og eitt náms- og þjálfunarverkefni fyrir sig – og þá rökstyðja áætlanir okkar í hverju og einu þessara verkefna – getum við áætlað þann fjölda kennara og starfsmanna sem við viljum senda í þjálfun á hverju ári og vonandi fáum við svo eins mikið fjármagn og við þurfum til þess. Það mun gerast samkvæmt mati Rannís ef áætlanir okkar eru í takt við aðildarumsóknina. Áætlað er að 3-5 starfsmenn fari í hverja ferð, að minnsta kosti einn stjórnandi svo aðrir sem valdir verða hverju sinni.
Samningurinn kemur á verulega góðum tíma þar sem nú er unnið að þróun skólasýnar við Barnaskólann. Í upphafi næsta skólaárs, skólaársins 2021-2022, hefst innleiðing nýrrar skólasýnar og má ætla að samningurinn og það aðgengi að fræðslu og samstarfi við fagaaðila í Evrópu sem hann færir komi til með að styrkja innleiðingu þeirrar sýnar.