-0.5 C
Selfoss

Hvað leynist í blómabeðinu þínu?

Vinsælast

Í vikunni fór ég í gönguferð í sérstöku veðurfari. Það lá þoka yfir Selfossi og veðrið var sveipað dulúð og ævintýraljóma. Það var sérstakt að ganga um bæinn því allt í einu birtust úr þokunni bílar og manneskjur. Ég sá ekki mjög langt en var fljót að venjast skyggninu, rétt eins og það er auðvelt að venjast myrkri. Við áttum okkur ekki á hversu mikið myrkur er í herbergi fyrr en ljós er kveikt. Það er eins með þokuna. Við áttum okkur ekki á því hversu skyggnið er lítið fyrr en þokuna fer að létta og við sjáum betur hvað framundan er. Þetta minnti mig á það hversu samdauna við getum orðið allskonar ástandi. Við erum fljót að aðlagast og það á ekki bara við um aðstæður sem eru góðar heldur líka aðstæður sem eru slæmar.

Við getum orðið samdauna meðvirkni, fíkn, áföllum, brestum og erfiðleikum í lífi okkar. Þegar við svo förum að takast á við þessa hluti, eina stund í einu, einn dag í einu þá léttir þokunni smám saman og við förum að sjá skýrar. Við sjáum nefnilega allt betur og skýrar þegar þokunni léttir og sólin fær að skína.

Þegar ég og þú fæddumst vorum við saklaus og hrein. Ég sé það fyrir mér að við höfum verið eins og lítið fallegt blóm í blómabeði sem var algjörlega illgresislaust. Til að byrja með döfnuðum við vel og allt leit vel út en svo var öðrum fræjum sáð í blómabeðið. Þessi fræ gáfu af sér illgresi. Þegar daganir liðu komu bæði stormar lífsins og þurrkatíð. Jarðvegurinn byrjaði að skorpna og veðurfarið í kringum okkur hafði mikil áhrif á tilfinningar okkar, vilja og hugarfar.

Ég byrjaði að takast á við illgresið í mínum garði fyrir rúmum 15 árum síðan. Ég áttaði mig á því að ég varð sjálf að takast á við illgresið í mínum garði. Ég gat fengið hjálp frá öðrum en ég varð að vilja það. Ef ég ætlaði að reyna skyndilausnir byrjaði arfinn að vaxa aftur. Ég varð að kafa djúpt. Ég varð að takast á við ræturnar.

Illgresið hafði allskyns heiti í mínu lífi. Þeirra stærst var óttinn, en ýmislegt annað var þar líka s.s.  eigingirni, gremja, stjórnsemi og sjálfsvorkunn. Alla ævi hafði ég tekið eftir illgresinu í blómabeði fólksins í kringum mig og reyndi eins og ég gat að reita það í burtu. En það var ekki mitt. Það var þeirra að takast á við þegar þau voru tilbúin.

Eftir því sem dagarnir og vikurnar liðu fór illgresið að minnka og blómið fékk að vaxa. Þokan fór að víkja. Ég fór að sjá til sólar. Suma daga kemur þoka en hún varir mun styttra en áður. Ég er ekki samdauna henni eins og áður. Ég hef lært að þekkja sjálfa mig betur með hverju ári sem líður. Ég þekki marga veikleika mína en ég þekki líka styrkleika.  Þeir hafi komið  betur í ljós eftir því sem illgresið hefur minnkað. Ég er langt frá því að vera fullkomin og  mun ég aldrei verða það. Ég er fullkomlega ófullkominn sem er frábært.  Ég get bara tekið ábyrgð á minni upplifun og mínum tilfinningum. Ekki upplifunum og tilfinningum annarra eins og ég gerði árum saman.

Byrjaðu að reita burt illgresið í þínum garði.. Það er einfaldara líf 🥰

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

Hlaðvarp: Einfaldara líf

Samfélagsmiðlar: Gunna Stella

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir